139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Þar sem hæstv. fjármálaráðherra er í svo góðu skapi í dag held ég að það sé við hæfi að reyna að strjúka karlinum örlítið og þakka honum fyrir ágæta greinargerð við framlagningu fjáraukalagafrumvarpsins. Ég tek heils hugar undir að það er fagnaðarefni að sjá þær breytingar sem fjáraukalögin gera ráð fyrir varðandi þá áætlun sem við ætlum að reyna að vinna eftir og lýtur að því að ná fram jöfnuði í ríkisfjármálum. Að því leyti til getum við verið sammála um heildarmyndina og ég kem síðar að því hvernig mér hugnast sú mynd sem birtist mér að öðru leyti.

Ég vil einnig taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hæstv. ráðherra varðandi það með hvaða hætti einstakar stofnanir eru að taka sig á í rekstri sínum og ber að fagna því að stofnanir virðast vera að vanda sig meira, taka sig betur á og að við sjáum færri alvarleg tilvik í rekstri ríkisins en áður, færri tilvik sem bera þess merki að menn ráði ekki við þá stöðu sem þeim er ætlað að halda samkvæmt fjárlögum. Þetta er gleðiefni í frumvarpinu. Þegar maður skoðar hins vegar heildarmyndina og rýnir örlítið í það hvað það er sem gefur okkur þessa góðu niðurstöðu, þá er það í sjálfu sér ekki ýkja flókið. Það eru í megindráttum kannski fjórar stærðir sem leiða þetta af sér. Ef við horfum á tekjuhliðina fyrst, þá er þar um að ræða margumrædda sölu á eignarhluta Íslands í Lúxemborg, Avens-samkomulagið sem kallað er, upp á 19 milljarða, sem veldur því að tekjuáætlunin kemur betur út en ætlað var. Á gjaldahliðinni sjáum við síðan til muna lægri fjármagnskostnað eða vaxtagjöld en reiknað var með, upp á rúma 20 milljarða, og til viðbótar eru tvö tilfelli sérstaklega þar sem um er að ræða vanmat á fjárlögum ársins 2010, sem eru lífeyris- eða almannatryggingarnar upp á tæpan hálfan milljarð og Atvinnuleysistryggingasjóður upp á 1,5 milljarða þar sem útgjöldin verða minni en ætlað var. Þessir þættir eru burðurinn í því að við erum að sjá hér jákvæðari niðurstöðu en fjárlögin fyrir árið 2010 gerðu ráð fyrir, ekki þar fyrir að hér sé um að ræða einhver töfrabrögð við úrvinnslu mála, þvert á móti.

En þegar ég horfi örlítið á greinargerðina með fjáraukalagafrumvarpinu og skoða sérstaklega töflu sem er að finna á bls. 54, sem er tafla um helstu þjóðhagsstærðir, þá renna dálítið á mig tvær grímur, sérstaklega miðað við þær umræður sem urðu hér í þingsal við framlagningu fjárlagafrumvarpsins um forsendurnar fyrir frumvarpi til fjárlaga ársins 2011 sem við erum að ræða nú um stundir í fjárlaganefndinni. Þegar maður skoðar þjóðhagsstærðirnar í spánni sem lágu til grundvallar fjárlögunum fyrir árið 2010 og svo endurskoðaða áætlun núna með fjáraukalögunum þá eru í þjóðhagsspánni gríðarleg frávik frá fjárlögum ársins 2010 í helstu lykilstærðum sem er full ástæða til að taka alvarlega.

Við erum að sjá gríðarleg frávik í einkaneyslu þar sem var spáð samdrætti upp á 4,3% en hann verður til muna minni, 0,1%. Stærsta einstaka frávikið er í fjárfestingunni, menn gerðu ráð fyrir því að hún ykist um 4,8% en niðurstaðan verður neikvæðari sem nemur tæpum 20%. Og þetta er sá þáttur sem á að bera uppi hagvöxtinn í fjárlagagerðinni 2011.

Ef við horfum síðan á launa- og verðlagsforsendur og lítum þar á ráðstöfunartekjur á mann sem dragast saman um 1% umfram það sem forsendur fjárlagaársins gerðu ráð fyrir og síðan kaupmátt ráðstöfunartekna sem dragast saman um rúmt 1% umfram forsendur fjárlaga ársins 2010 þá veltir maður fyrir sér hvað það er sem veldur því hvernig breytingin verður á samsetningu tekna í þeim fjáraukalagatillögum sem hér eru lagðar fram. Við sjáum að gert er ráð fyrir því að tekjuskattur einstaklinga og lögaðila dragist saman. Burðurinn í þessum breytingum liggur í breytingum á virðisaukaskatti og það er mjög einkennilegt að horfa til þess og spá í það hvað valdi því að virðisaukaskatturinn ber uppi þann tekjuauka sem er í fjáraukatillögunum umfram sölutekjur af eignum, á sama tíma og einkaneysla dregst saman, á sama tíma og ráðstöfunartekjur og kaupmáttur eru að rýrna.

Hvað veldur því að virðisaukaskatturinn fer þetta langt fram úr áætlun? Í fljótu bragði koma tveir þættir upp í kollinn á manni þegar maður horfir á þetta. Í fyrsta lagi þær breytingar sem voru gerðar á virðisaukaskattinum, prósentan var hækkuð úr 24,5 í 25,5, en síðan má ekki gleyma því að gerðar voru breytingar á innheimtu virðisaukaskattsins þannig að hluti virðisaukaskatts ársins 2009 kemur inn í tekjur ríkisins í janúar 2010 vegna greiðslufrestaheimilda sem hófust í lok ársins 2008.

Hinn þátturinn sem verður aldrei skýrður svo nokkru nemi getur legið í því að svört atvinnustarfsemi sé að aukast sem valdi því að virðisaukaskatturinn af seldri vöru sé að koma mun sterkari inn en menn gerðu ráð fyrir og það er erfitt að finna haldbærari skýringar á því.

Þegar maður fer síðan að skoða þær breytingar sem liggja inni í þessu frumvarpi, sérstaklega gjaldamegin, þá byggja þær að stærstum hluta á ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Þó að menn nefni hér einstök atriði, eins og t.d. þennan margumrædda sendiráðsbústað, þá er um að ræða þannig stærð að það er óhjákvæmilegt að ræða þetta. Þegar við horfum í fjáraukatillögunum upp á að náttúruhamfarir hafi valdið ríkissjóði ófyrirséðu tjóni eða kostnaði upp á 800 millj. kr., sem okkur þykir vera gríðarlega há fjárhæð en er út af fyrir sig mjög vel sloppið, þá eru náttúruhamfarir af mannavöldum í sendiherrabústaðakaupum töluvert mörgum tugum milljóna króna dýrari en það. Auðvitað snerta þessar fjárhæðir fólk. En það eru kannski ekki bara stóru tölurnar, við getum t.d. líka litið á sérfræðikostnaðinn sem leiðir af þessu fjármálahruni. Við erum með gríðarlega háar tölur hér inni vegna sérfræðikaupa út af Icesave og þjóðaratkvæðagreiðslu vegna Icesave, en við erum líka með 230 millj. kr. sérfræðikaup vegna málefna sparisjóðanna. Það er töluvert há fjárhæð og við fáum ekki miklar skýringar á henni í því frumvarpi sem liggur fyrir. Væntanlega eigum við eftir að fá þær skýringar sundurgreindar og fá nánari útlistun á því hvar þessi kostnaður liggur.

Þegar ég lít yfir þær heildarbreytingar sem gerðar eru á fjárlögunum þá eru þær af ýmsum toga sprottnar. Sumar er ekki hægt að flokka beinlínis undir ófyrirséð útgjöld heldur eru þetta ákvarðanir sem teknar eru af ríkisstjórn og síðan er óskað eftir því að Alþingi staðfesti þetta einhverjum mánuðum eftir að búið er að tilkynna um væntanleg útgjöld. Í því efni vil ég nefna þó ekki væri nema hið margumrædda kynningarátak í ferðaþjónustu, sem eru útgjöld upp á 350 millj. kr., það er bara eitt lítið dæmi. Þetta er sérstaklega umhugsunarvert einfaldlega vegna þess að mjög mikil samstaða hefur ríkt um það frá því að þetta áfall dundi yfir að reyna að auka agann í ríkisfjármálunum og flestir eru sammála um það að okkur miði eitthvað í rétta átt, en það er samt sem áður af nægu að taka.

Ég vil nefna það sérstaklega að í langtímaáætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013 sem Alþingi hefur samþykkt er beinlínis kveðið á um það með hvaða hætti ætlast er til að ríkisstjórnin og þingið vinni. Með leyfi forseta, ætla ég að vitna beint til þeirrar samþykktar sem Alþingi hefur gert:

„Einstakir ráðherrar geri ekki samkomulög eða gefi yfirlýsingar sem feli í sér útgjaldaskuldbindingar af hálfu ríkisins nema gert hafi verið sérstaklega ráð fyrir því að í fjárheimildum gildandi fjárlaga og fjármálaráðherra hafi fallist á skuldbindinguna.“

Við finnum því miður enn þá dæmi þessa í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og ég vænti þess og vona svo sannarlega að þegar fram líða stundir fækki þeim enn meira en orðið er. Ég tel nauðsynlegt að benda á þetta hér, ekki síst í ljósi þess að það hefur líka verið lagt upp með þetta, m.a. af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Nefni ég í því dæmi ræðu hans við 1. umr. fjárlaga fyrir árið 2010 þar sem hann ræddi samskipti ríkisstjórnar, meðferð hennar á fjárlögum og samskipti við Alþingi. Með leyfi forseta, ætla ég að vitna til orða hæstv. ráðherra við þá umræðu:

„Að sjálfsögðu kemur svo stór þáttur Alþingis og fjárlaganefndar Alþingis hér við sögu og mikilvægt að þar sé gott samstarf og greiðir gangvegir á milli þannig að Alþingi geti fylgt fram sínu nauðsynlega eftirlits- og aðhaldshlutverki auk þess að vinna að fjárlagafrumvarpinu sjálfu eftir að það kemur í þess hendur.“

Hvernig hefur þetta gengið? Við erum hér búin að fá skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir tímabilið janúar til ágúst. Þar koma fram enn eina ferðina, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, töluvert alvarlegar athugasemdir, sérstaklega á því sem lýtur að uppsöfnuðum halla stofnana.

Ég vil, forseti, leyfa mér að nefna sérstaklega 2. tölulið í ábendingum Ríkisendurskoðunar þar sem fjallað er um að það þurfi að taka á uppsöfnuðum halla stofnana. Ríkisendurskoðun, sem starfar í umboði Alþingis sem eftirlitsaðili með framkvæmdarvaldinu, fullyrðir að það verklag sem þarna er viðhaft brjóti í bága við lög.

Við höfum dæmin fyrir framan okkur, m.a. hvernig leyst var úr skuldavanda eða halla Landspítalans með 2,8 milljarða lántöku. Þess sér ekki stað hér inni með hvaða hætti Landspítalanum er ætlað að að taka á þessu máli og ég sé að þess er heldur ekkert sérstaklega getið í þeim texta sem hér liggur fyrir hvernig fara skuli með þetta mál. Þó að ég sé að ræða þetta sérstaklega þá verða menn að hafa í huga að þetta er ákveðið fordæmi sem gefið er gagnvart öðrum sem eru með miklu minni halla en hljóta eðlilega að sækja um sams konar fyrirgreiðslu.

Ég get vitnað til nýlegra dæmis sem eru yfirlýsingar heilbrigðisráðherra við framlagningu frumvarps til fjárlaga 2011 þar sem gefið var í skyn að hæstv. ráðherra áskildi sér allan rétt til þess að koma með breytingartillögur við frumvarpið. Hvað þýðir þetta? Menn eru að gefa lausan taum.

Ég ætla ekki að fara mikið lengra í þetta dæmi um samskipti Alþingis og ríkisstjórnar nema nefna hér í lokin eitt leiðinlegasta dæmi sem ég hef séð og það var þegar fyrrverandi heilbrigðisráðherra talaði um bullið í Ríkisendurskoðun og vísaði allri ábyrgð á tillögugerð ráðuneytisins varðandi málefni eða framkvæmd fjárlaga gagnvart Sjúkratryggingum Íslands til fjárlaganefndar og Alþingis. Þannig ganga hlutirnir ekki. Það er ekki hægt að ætlast til þess. Fjárlaganefndin verður að kalla eftir með mun ríkari hætti við stofnanir og ráðuneyti hvernig þau ætla sér að ná fram þeim tillögum sem lagðar eru fram í fjárlögum ársins 2011 ef við í fjárlaganefndinni eigum von á því að fá slíka blauta tusku í andlitið í hvert sinn sem ráðherra er staðinn að verki og honum stillt upp við vegg með að þær tillögur sem hann hefur lagt til við Alþingi eigi sér enga stoð, eins og raunar var bent á í sambandi við fjárlagagerð ársins 2010.