145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

uppbygging á Bakka.

[15:26]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég deili sannarlega áhyggjum hv. þingmanns af þessu máli. Þetta verkefni eins og menn í þessum sal vita á sér upptök á síðasta kjörtímabili þegar sett voru sérstök lög um þessa framkvæmd. Þáverandi ríkisstjórn studdi þessa framkvæmd og núverandi ríkisstjórn hefur unnið af miklum heilindum að því að koma þessu verkefni af stað frá því að við tókum við. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að staðan sem nú kemur upp var alls ekki fyrirsjáanleg og ég held að engan, jafnvel ekki okkur hér eða þá sem stóðu að setningu nýrra náttúruverndarlaga, hafi órað fyrir að þetta mundi setja þau verkefni sem þegar væru farin af stað í slíkt uppnám.

Hv. þingmaður spyr hvað ég hyggist gera eða við á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Þá get ég upplýst að þetta er mál sem snýr að fleiri en einu ráðuneyti vegna þess að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál heyrir undir umhverfisráðherra og fjárfestingarsamningar heyra undir mig. Því er að undirlagi forsætisráðherra verið að skoða á milli ráðuneytanna leiðir til þess að bregðast við þessu, leiðir sem sannarlega mundu leysa málið en ekki skapa fleiri. Það er það sem verið er að gera. Ég fullvissa hv. þingmann um að allir eru mjög meðvitaðir um nauðsyn þess að leysa þetta mál, ekki síst við í mínu ráðuneyti. Ég hef fyrr á kjörtímabilinu m.a. beitt mér fyrir því og fengið samþykktar breytingar á raforkulögum sem eiga að koma í veg fyrir svona uppákomu þannig að deilur og ósætti um framkvæmdir séu leystar til fulls á fyrri stigum og hægt sé að klára (Forseti hringir.) verkefni og að þau fari ekki í uppnám þegar þau eru komin af stað eins og þetta er gott dæmi um.