138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í fyrsta lagi alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að frá 2007 hefur verið í lögum heimild til að sameina ráðuneyti án þess að lagabreytingu þyrfti til með einföldum forsetaúrskurði. Það er líka rétt að breytingar í þessum efnum lúta í sumum nágrannalöndum okkar miklu minni formreglum þannig að sveigjanleikinn er meiri. Ég hef ekki tíma hér til að fara í almennar vangaveltur um það að hvaða marki stjórnsýslan á að vera formföst og að hvaða leyti hún á að vera sveigjanleg. Stór gagnrýni á stjórnsýsluna undanfarin missiri hefur einmitt verið sú að hún hafi ekki fylgt formreglum nægilega vel þannig að það eru tvær hliðar á því máli.

Ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra að æskilegt er að fá þetta mál inn í þingið. Ég hygg að það sé í rauninni miklu betra en að afgreiða það á borði ríkisstjórnarinnar þó að það sé heimilt að einhverju leyti. Frumvarpið eins og það leit út í upphafi passaði reyndar ekki inn í þá mynd vegna þess að þar var ekki einungis um að ræða sameiningu ráðuneyta heldur líka tilfærslu einstakra málaflokka milli ráðuneyta og verkefna og stofnana og þess háttar þannig að þar hefði a.m.k. þurft lagabreytingu til. En þegar búið er að klippa helminginn af frumvarpinu, eins og meiri hluti allsherjarnefndar leggur til, passar það auðvitað miklu betur inn í þá mynd. En það er betra að fá umræðu um þetta í þinginu, ég er almennt þeirrar skoðunar.

Varðandi fjárþörf forsætisráðuneytisins er það staðreynd að útgjöld forsætisráðuneytisins jukust árið 2009 frá árinu 2008 og fjárlagaheimild forsætisráðuneytisins fyrir 2010 er hærri að raungildi en árið á undan. Þetta eru tölurnar sem liggja fyrir í opinberum gögnum (Forseti hringir.) og hafa t.d. komið fram í svörum við fyrirspurnum hér í þinginu.