145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið nokkuð rætt um skýrslu þá sem kynnt var í gær og snýr að einkavæðingunni hinni síðari. Það er áhugavert að fyrst og fremst er verið að ræða um formið en við erum ekki enn farin að ræða um efnið. Ég vonast til þess að við komumst á þann stað að ræða efnið.

Það er rétt hjá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að þar er vísað í skýrslur og úttektir og svör. Þetta er gert til þess að aðilar geti rakið sig áfram í gegnum þetta. Ég mundi ætla að þeir sem tala um mikilvægi þess að hafa allt uppi á borðum og gagnsæi og annað slíkt ættu að fagna því að þessar upplýsingar séu settar fram með þessum hætti. En svo er ekki.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að við einkavæðinguna var ábyrgðin því miður fyrst og fremst hjá skattgreiðendum en ávinningurinn fór allur til eigendanna eða kröfuhafanna. Sem betur fer hefur þetta mál farið vel vegna þess að núverandi ríkisstjórn hefur haldið vel á málum og haldið vel utan um hagsmuni skattgreiðenda hvað þetta varðar. Það sjáum við bæði í bankaskattinum og í stöðugleikaframlaginu. En við komumst ekki hjá því að skoða þessi mál í samhengi við önnur sambærileg mál á síðasta kjörtímabili og er ég þá t.d. að vísa til Icesave, máls Sparisjóðs Keflavíkur og Dróma. Við getum ekki annað en komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið haldið vel á málum af hálfu pólitískra aðila sem þá voru í forustu í landsstjórninni og svo sannarlega, ef við skoðum þau mál sem við höfum nú ekki gert að fullu, eins og t.d. Icesave-málið, að of mikil virðing hafi verið borin fyrir kröfuhöfunum.

Ég vona að okkur auðnist að ræða þessi mál málefnalega og af hófsemd því að það er mikilvægt að læra af mistökunum, sjá hvað vel hefur verið gert og hvað hefur farið miður. (Forseti hringir.) Það er vont að endurtaka mistök.


Efnisorð er vísa í ræðuna