145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Evrópusambandið er tollabandalag og harðdrægt í viðskiptasamningum. Það er vel að við skyldum ná samningum við það. Þetta er umtalsvert mikil aukning. Í heildina held ég að þetta fari úr 700 tonnum í 3.800 tonn. Það er rétt sem hér hefur komið fram, það skiptir miklu máli hvernig þetta er framkvæmt og uppboðsleiðin hefur ekki verið vænleg.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að mikil tækifæri eru í fríverslun í nánustu framtíð. Útganga Breta úr tollabandalaginu mun kalla á aukna fríverslun víða um heiminn sem við getum auðveldlega tekið þátt í, ég tala nú ekki um ef Bretar verða aðilar að EFTA. Sömuleiðis sjáum við að það er enn umræða um TTIP og ýmislegt annað. Þetta er nokkuð sem við þurfum að búa okkur undir. Við eigum heilnæman og góðan íslenskan landbúnað sem getur svo sannarlega staðist öllum öðrum landbúnaði snúning þegar kemur að gæðum og þannig eigum við að nálgast málið.

Ég greiði atkvæði með þessum fríverslunarsamningi.