138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég kom upp í gær undir liðnum um störf þingsins og spurði hv. þm. Árna Þór Sigurðsson mjög einfaldrar spurningar. Ég þekki hv. þm. Árna Þór Sigurðsson vegna starfa okkar á öðrum vettvangi og veit að hann á það til að tala mjög lengi án þess að segja neitt. Það gerðist í gær. Það getur vel verið að þessar tvær mínútur sem hann hafði hafi ekki verið nógur tími til að svara þeirri einföldu spurningu sem ég bar upp í gær en hæstv. utanríkisráðherra svaraði henni að vísu mjög snöfurmannlega og staðfesti að það væri rétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að skipta hefði þurft um í ríkisstjórninni til að tryggja þingmeirihluta. (Utanrrh.: Spurning hvað …) Aftur er hæstv. utanríkisráðherra byrjaður, heldur áfram frá því í gær og ég fagna því. Hann stóð sig vel í gær og ég vona að hann standi sig jafn vel í dag.

Virðulegi forseti. Ég fer vinsamlegast fram á að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson svari spurningunni sem var borin upp í gær sem er einfaldlega þessi: Er það satt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði við fjölmiðla að setja hefði þurft aðila inn í ríkisstjórnina, skipta um í ríkisstjórninni, til að tryggja þingmeirihluta? Það er afskaplega mikilvægt að þetta sé upplýst. Enginn maður þekkir þetta betur en hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sem er formaður þingflokks Vinstri grænna. Ef hv. þm. Árni Þór Sigurðsson treystir sér ekki til að svara spurningunni (Utanrrh.: Þá skal ég gera það.) mundi ég biðja hann sömuleiðis kurteislega um að svara því af hverju það er. Annars getum við aftur spjallað saman á föstudaginn.