145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[15:22]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Það vekur auðvitað athygli hversu seint þetta kemur allt fram, eftir að allt það sem á undan er gengið er að baki. Ég fékk senda umsögn Landverndar vegna skipulags háhitasvæðis í Þingeyjarsýslum sem var send í október 2007. Þar kemur fram að Landvernd hafi fylgst með gerð tillögu undirritaðra og í því samhengi átt samráðsfund í Húsavík í október 2006 og aftur nú á dögunum.

Þar segir að þó að skiptar skoðanir sú uppi um þau áform sem skipulagið þjónar sé ljóst að vinnan sem hér um ræðir sé vel unnin og skipulagstillagan sjálf sé í meginatriðum góð og greint vel frá grunngögnum og reynt að velja og forgangsraða valkostum virkjana með tilliti til lágmörkunar á umhverfisraski.

Einnig segir að við áform um stórfellda orkunýtingu og atvinnuaukningu í einstökum landshlutum ættu sveitarfélög annars staðar á landinu að taka Þingeyinga sér til fyrirmyndar.

Og að lokum segir að vara verði við rannsókn á ýmsum háhitasvæðum.

Þetta er skrifað 2007 af Landvernd. Ég veit ekkert hvað hefur breyst hjá þeim í öllu þessu ferli en auðvitað hlýtur það að vera til umhugsunar að svo seint í ferlinu og meðal annars á grundvelli nýsettra laga, sem menn hafa þá legið yfir til að finna hugsanlegar glufur í, komi þetta fram. Af hverju var þetta ekki — á grundvelli þess sem hér var vitnað til, virðulegi forseti, af hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur — komið fram fyrr? Miklu frekar er ég að lesa hér úr bréfi sem kemur frá Landvernd á þeim tíma þegar undirbúningur þessa verkefnis stendur yfir. Landvernd hefur átt í samstarfi og samvinnu við sveitarfélögin og fullyrðir að önnur sveitarfélög annars staðar á landinu mættu taka Þingeyinga sér til fyrirmyndar.