145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[18:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og get tekið undir, gott ef ekki hreinlega allt sem þar kom fram. Ég hef þó þann fyrirvara þegar orðræðan hefur farið út í það að hraða málsmeðferð, þótt það sé vissulega eitt af því brýnasta, að hætt er við því að breyttar reglur sem miða fyrst og fremst að því að hraða bitni á málsmeðferð ef það er ekki líka tekið með í reikninginn að það má ekki einfaldlega verða færibandavæðing á höfnunum. Það er vitaskuld ekki á málasviði hæstv. ráðherra þannig að ég býst ekkert við því að hann svari því. Ég er sammála því að hraða þarf málsmeðferðinni mjög mikið, en ég held að þessi lenska að nota alltaf Dyflinnarreglugerðina þegar mögulegt er kosti ógrynni af peningum. Mér þætti það verðugt rannsóknarefni. Ef hæstv. ráðherra veit eitthvað um það væri fínt að fá að vita það.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það er góð fjárfesting að setja peninga í þennan málaflokk. Það er hætt við því að þegar við bíðum og eyðum peningum í kerfi sem við höfum sett upp og fjármögnum síðan ekki hæfilega verði hælisleitendum sjálfum kennt um og látið eins og þeir séu vandinn en ekki við.