145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:07]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er mjög skrýtið að vera að ræða þetta mál, sem er 2. dagskrármál þessa þingfundar, frumvarp til laga um breytingar á lögum um breytingar á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Málið kemur náttúrlega allt of seint fram, eins og við höfum rætt hér, enda var lagt upp með að hæstv. ríkisstjórn mundi fá full fjögur ár til að sinna sínum málum þegar frumvarpið var gert. Síðan tók ríkisstjórn þá ákvörðun af sjálfsdáðum að boða til kosninga út af ýmsum hneykslismálum, þannig að núna er staðan sú að við höfum miklu minni tíma til þess að tala um þetta mál, til að vinna í því en annars væri.

Komið hefur fram hjá hv. þingmönnum og í greinargerð frumvarpsins að málið hefur verið í vinnslu mjög lengi, sumir vilja jafnvel ganga svo langt að segja svo áratugum skipti. Það skiptir ekki máli þannig lagað séð af því að þetta mál og öll önnur þurfa að fara í gegnum ákveðið þinglegt ferli. Þar sem tekið hefur svo langan tíma að ná samkomulagi finnst mér að þingið eigi að sýna málinu þá virðingu að fara almennilega í gegnum það af því að hérna erum við að tala um framtíð fólks. Þarna erum við að búa til lög um framtíð mína meira og minna. Málið er ekki óumdeilt og ég held að það sé skylda þingsins að hlusta á þá sem hvetja til þess að málið verði samþykkt, og hlusta líka á gagnrýnisraddir. Ég veit að sum stéttarfélög, t.d. Kennarasamband Íslands og fleiri, hafa lýst efasemdum sínum varðandi þessar breytingar. Ég fékk skilaboð frá Sjúkraliðafélagi Íslands þess efnis að félagsmenn væru ekki alveg nógu sáttir við málið.

Það sem stingur einkum í augu er að þarna er um að ræða tvær umönnunarstéttir, kennarastéttina annars vegar og hins vegar sjúkraliðastéttina, sem vekja athygli á því að ekki sé verið að gæta hagsmuna þessara stétta með breytingunum. Þetta eru, ótrúlegt en satt, kvennastéttir og láglaunastéttir í þokkabót.

Ég held því að þó að markmiðið með breytingunum sé í sjálfu sér gott og þótt ég sé sammála markmiðinu um að jafna lífeyrisréttindi fólks milli opinbera geirans og einkageirans þá sé þetta nokkuð sem við þurfum að fá að skoða.

Ég held að þið skiljið af hverju við viljum að málið fái almennilega þinglega meðferð. Þá erum við að tala um tveggja vikna umsagnarfrest, og að fá til okkar gesti og ég veit ekki hvað og hvað. Málið er bara þess eðlis að við þurfum tíma.

Ég sé ekki alveg hvernig hæstv. fjármálaráðherra getur ætlast til þess að við förum með málið í gegn í því offorsi á þessum tveimur og hálfa degi sem er eftir af þessu þingi til að fara í gegnum þetta allt saman. Því miður.

Varðandi efnistök frumvarpsins verð ég nú að segja að ég er mjög hlynnt því að jafna kjör. Ég er hlynnt því markmiði að jafna kjör upp á við. En það er náttúrlega hlutverk mitt sem alþingismanns að skoða rækilega allt sem kemur frá ríkisstjórninni. Það er greinilega eitthvert samkomulag búið að nást hérna sem virðist vera ágætt, en á móti kemur að það eru kannski fleiri hliðar á málinu sem ég hef ekki fengið að sjá hingað til. Almennilegt þinglegt ferli þar sem farið væri ítarlega yfir málið er auðvitað forsenda þess að málið fari í gegn.

Það stingur svolítið í stúf, og þess vegna er ég að tala um þinglegt ferli, að á bls. 14 í frumvarpinu er beinlínis gert ráð fyrir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ljóst er að verði frumvarp þetta lögfest þarf að gera ráðstafanir til að leggja LSR til mikla fjármuni, nálægt 100 milljarða kr., sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í gildandi fjárlögum, og að afla þyrfti heimilda til þess í fjáraukalögum fyrir árið 2016.“

Mér þótti það allt í góðu, ef við ætluðum að keyra þetta í gegn á tveimur vikum mundi það sjálfsagt þurfa að gerast svona. En síðan fór ég að skoða fjáraukalög fyrir 2016 og sá að fram kemur á bls. 20 að gert er ráð fyrir að á árinu 2016 verði gjaldfærðir 83,5 milljarðar kr. vegna einskiptisuppgjörs á A-deild LSR.

Mér þykir það svolítið einkennilegt. Þetta eru náttúrlega frumvörp sem unnin eru saman í fjármálaráðuneytinu, lögð fram af sama hæstv. ráðherra og þar fram eftir götunum. Mér þætti mér eðlilegra að þetta kæmi inn í fjáraukalögum hinum síðari eða þeim sem næsta ríkisstjórn mun leggja fram, fari frumvarpið í gegn. Mér finnst svolítið einkennilegt að strax sé búið að gera ráð fyrir því í frumvarpi um breytingu á A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að þetta komi inn í fjáraukalögin 2016. Ég set spurningarmerki við það því að þetta sýnir ákveðna ætlan sem ekki er tími til að standa við nema auðvitað ef við ætlum að vera hér fram til loka október, sem virðist vera ætlunin.

Ég hef eilitlar áhyggjur af því varðandi þetta góða mál, sem það er ábyggilega að mestu leyti, að fólk muni skipa sér í einhverjar fylkingar gagnvart því, ekki endilega af því að við séum ósammála, heldur af því að þetta er stórt mál og það er ákveðinn trukkagangur við að koma því í gegn. Mér finnst að við eigum að sýna málinu þá virðingu að flýta okkur hægt. Ég sé ekkert sem mælir gegn því að við reynum að vinna það aðeins hægar. Það kemur ný ríkisstjórn eftir þessa ríkisstjórn á næsta kjörtímabili og það er ekki eins og við séum að tala um að heimurinn farist eða eitthvað því um líkt ef þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn verða ekki við völd þá.

Það er margt sem þarf að skoða í sambandi við þetta frumvarp. Mig langar til sér í lagi að nefna að allar forsendurnar í frumvarpinu eru miðaðar við að ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna eigi að vera 3,5%. Það skiptir máli af því að við vitum alveg í hvernig eignum lífeyrissjóðirnir vilja fjárfesta, þ.e. að megninu til húsnæðislánum til einstaklinga. Ef við förum að keyra upp húsnæðisverð með vaxtakostnaði til lífeyrissjóða mun það hafa áhrif.

Við þurfum að átta okkur á því hvað við erum að festa hér í lög. Erum við að festa það í lög að ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna verði 3,5% til framtíðar? Göngum við of greitt fram eða gerum við það kannski ekki, o.s.frv.?

Það eru ýmiss konar spurningar sem þarf líka að fá svar við, eins og t.d. hve margir sjóðfélagar í A-deild greiða viðbótarlífeyrissparnað. Ég vona að hv. fjárlaganefnd muni fara yfir það, því að það breytir svolítið forsendunum. Viðbótarlífeyrissparnaðinum var komið á til að byrja með til þess að jafna kjörin milli opinbera markaðarins og almenna markaðarins hvað lífeyrissparnað varðar. Við erum náttúrlega farin að nota viðbótarlífeyrissparnaðinn á allt annan hátt en ætlast var til. Það sést t.d. á frumvörpum frá hv. ríkisstjórn þar sem ungt og efnamikið fólk sem getur lagt í lífeyrissparnað fær tækifæri til að greiða af höfuðstóli húsnæðisláns eða leggja út fyrir útborgun í íbúð með því að nýta sér viðbótarlífeyrissparnaðinn. Þetta er rosalega stórt mál og til þess að við getum myndað okkur einhverja skoðun þurfum við meiri tíma.

Hæstv. fjármálaráðherra benti mér á ákveðið atriði varðandi LÍN við 1. umr. þegar málið var fyrst tekið fyrir. Það þarf að skýra þann texta betur, alla vega í greinargerðinni, og segja hvað er í raun átt við. Þegar ég og fleiri lásum þann texta fyrst fyrst varðandi fjármögnun, þ.e. hvernig standa ætti að að fjármögnun á LSR, einskiptisuppgjöri á A-deild, skildum við það þannig að það yrði að hluta til fjármagnað með skuldabréfum á LÍN. Það er vert að taka það fram að samkvæmt því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði er þetta ekki skuldabréf LÍN gagnvart lánþegum LÍN heldur skuldabréf ríkisins gagnvart LÍN sem lánar þau skuldabréf eða það fjármagn síðan áfram til nemenda eða stúdenta. Það er náttúrlega allt annar hlutur. Ég get ekki sett mikið út á það fyrirkomulag, en það væri alveg galið að sýsla með skuldabréf námsmanna. En ef ekki er verið að gera það hér get ég ekki sett mikið út á það.

Ég tek undir það sem aðrir hv. ræðumenn segja, stundum er bara kominn tími til þess að gera hlutina. Það getur vel verið að kominn sé tími til þess að gera þetta og það mundi að sjálfsögðu vera allt önnur staða uppi ef við ættum hér heilt ár eftir. Þá held ég að þetta mál væri eitt af þeim málum sem við mundum afgreiða. En það þarf að gerast í sátt. Við þurfum að fá að heyra þær gagnrýnisraddir sem uppi eru um það. Við þurfum að fara að átta okkur á því hvað verið er að festa hér framtíðar. Er verið að jafna eða er verið að skerða tækifæri mín til framtíðar á minn kostnað?

Ég held að séu allir sammála um að það er mikið misrétti í núverandi fyrirkomulagi og því hvernig lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna er háttað, sér í lagi þeirra sem verið hafa í mjög háum stöðum í þjóðfélaginu. Þar hefur ekki verið tekin sérstaklega mikil ábyrgð á málum. En á sama tíma þurfum við að sjálfsögðu að passa upp á láglaunastéttirnar, sem eru líka hluti af opinbera geiranum, þá er ég að tala um kennarastéttina, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, og pössum upp á að það sé gulltryggt, og það er algjör forsenda fyrir því að frumvarpið geti farið í gegn, að þessar stéttir muni ekki koma verr út, heldur betur ef eitthvað er.

Að sama skapi er vert að velta fyrir sér hvort uppsöfnunarlífeyrissjóðir séu í raun og veru æskilegir. Það er náttúrlega gott og blessað að við viljum að hver kynslóð standi undir sér, en það er til annað fyrirkomulag, eins og t.d. í Þýskalandi. Þar eru svokallaðir gegnumstreymislífeyrissjóðir í bland við séreignarsparnað þar sem fólk greiðir ákveðið tryggingagjald og hluti af því rennur til þeirra sem eru á ellilífeyri. Það er ekkert meitlað í stein þegar við tölum hvernig við viljum hafa Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eða hvernig við viljum hafa lífeyriskerfi yfir höfuð. Þetta setur fordæmi um það hvernig málunum skuli vera háttað, þ.e. hvernig hið opinbera gerir þetta.

Virðulegi forseti. Ég set spurningarmerki við hvort við höfum tíma til að afgreiða þetta mál. Ég set spurningarmerki við það hvort núverandi hæstv. fjármálaráðherra hafi umboð til þess að keyra þetta mál í gegn. Ég set spurningarmerki við þau vinnubrögð að þetta sé strax komið í fjáraukalög sem sérstakur liður þar þrátt fyrir að málið sé ekki einu sinni búið að fara í gegnum 1. umr. þingsins. Ég set spurningarmerki við það sem verið er að festa til framtíðar þegar kemur að ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða. Síðan þarf að skoða þetta mál vel, bara til þess að það sé alveg á hreinu, sérstaklega með tilliti til tekjulægri hópa innan opinbera geirans. Það hljómar kannski ankannalega í sumum eyrum af því að fólk ímyndar sér alltaf að alþingismenn og ráðherrar séu svo ríkir og hafi það svo gott, en það eru fleiri starfsmenn ríkisins en einhverjir bírókratar og alþingismenn, það heyra nefnilega fleiri undir ríkið. Við þurfum að sjá til þess að þeir hafi það jafn gott nú sem áður og mögulega og vonandi betra í framtíðinni.