138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir viðbrögð við spurningunni. Mig langar til að koma aðeins inn á nokkur önnur atriði í stutta síðara andsvari mínu. Í fyrsta lagi kom hann inn á að Seðlabankinn hefði á árinu 2008 haldið áfram lánveitingum og mat nefndarinnar væri að þar hefði hann farið óvarlega. Engu að síður liggur fyrir að það sem fjármálakerfið þurfti helst á að halda á árinu 2008 var aukið aðgengi að lausafé. Þess vegna eru framkvæmdir seðlabanka um alla Evrópu í takt við það sem Seðlabankinn var að gera á þessum tíma. Jafnframt finnst mér lítið tillit tekið til þess í umræðunni að með neyðarlögunum voru veðin sem Seðlabankinn tók í auknum lánveitingum sínum á árinu 2008 gerð verðlaus. Gæti hv. þingmaður komið aðeins inn á það? Og rétt í restina, vegna þess að hv. þingmaður kom inn á það sem hefur verið í umræðunni frá útgáfu skýrslunnar um einkavæðingu (Forseti hringir.) bankanna, vil ég koma því að hér að auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að menn tali sig niður á samkomulag um rannsókn á einkavæðingu bankanna í framtíðinni þótt einstakir (Forseti hringir.) nefndarmenn hafi verið þeirrar skoðunar að það sé ekki líklegt til mikils árangurs. En það (Forseti hringir.) aftraði ekki þingmannanefndinni frá því að komast að mjög ákveðnum niðurstöðum um einkavæðingarferlið að hafa ekki í höndunum slíka rannsókn.