131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Varamenn taka þingsæti.

[13:36]

Forseti (Guðmundur Árni Stefánsson):

Borist hafa þrjú bréf um forföll þingmanna, hið fyrsta frá 2. þm. Norðaust., Halldóri Blöndal, dags. 29. okt., og hljóðar svo:

„Sem ég er á förum til útlanda í erindum Alþingis get ég ekki sótt þingfundi á næstunni. Óska ég eftir því, með vísan til 2. mgr. 53. gr. þingskapa, að 1. varamaður á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Sigríður Ingvarsdóttir, taki sæti mitt á Alþingi á meðan.“

 

Annað bréf er frá hv. 10. þm. Suðvest., Gunnari Örlygssyni, dags. 1. nóv., og hljóðar svo:

„Þar sem ég get ekki, af einkaástæðum, sótt þingfundi næstu tvær vikur óska ég eftir því, með vísan til 2. mgr. 53. gr. þingskapa, að varamaður minn, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, taki sæti mitt á Alþingi á meðan.“

 

Sigríður Ingvarsdóttir og Sigurlín Margrét Sigurðardóttir hafa áður tekið sæti á Alþingi og eru boðnar velkomnar til starfa á nýjan leik.

Þriðja bréfið er frá 5. þm. Norðaust., Steingrími J. Sigfússyni, dags. 29. okt., og hljóðar svo:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og get því ekki sótt þingfundi á næstunni óska ég eftir því, með vísan til 2. mgr. 53. gr. þingskapa, að 2. varamaður á lista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, Bjarkey Gunnarsdóttir leiðbeinandi, Ólafsfirði, taki sæti mitt á Alþingi á meðan þar sem 1. varamaður á listanum, Hlynur Hallsson, er forfallaður.“

 

Borist hefur svohljóðandi bréf frá 1. varaþingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í Norðaust., Hlyni Hallssyni, dags. 28. okt. 2004:

„Ég get því miður ekki að þessu sinni vegna sérstakra anna tekið sæti Steingríms J. Sigfússonar á Alþingi.“

Kjörbréf Bjarkeyjar Gunnarsdóttur hefur þegar verið rannsakað og samþykkt en hún hefur ekki tekið sæti á Alþingi áður og ber því að undirskrifa drengskaparheit að stjórnarskránni.

 

[Bjarkey Gunnarsdóttir, 5. þm. Norðaust., undirritaði drengskaparheit um að halda stjórnarskrána.]