135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:24]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er stigið stórt skref í jafnréttisátt og ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framtak hennar. Henni hefur tekist að sveigja Sjálfstæðisflokkinn inn á þessa línu þó að takmörkuðu leyti sé.

Tilefnið að ég stend upp er að spyrja hæstv. ráðherra hvað vantar í þetta frumvarp sem var í áliti og frumvarpi nefndar Guðrúnar Erlendsdóttur hæstaréttardómara? Hvar er hér gengið skemur?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju eru Jafnréttisstofu ekki veittar sambærilegar heimildir og skattstofum, tollayfirvöldum, Fjármálaeftirliti og Samkeppniseftirliti? Eru fjármál virkilega merkilegri hlutur en réttindi, jafnrétti kvenna og karla? Þannig lítur þetta frumvarp út, fjármálum er gert hærra undir höfði en jafnréttinu.

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða fjárveitinga má vænta til viðbótar inn í þennan málaflokk? Vegna þess að í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum og í því sambandi vil ég ítreka að hér eru mannréttindabrot í gangi. Hér er staðfestur kynbundinn launamunur allt að 18% sem er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og hér er í gangi kynbundið ofbeldi sem fjórða hver kona á landinu upplifir, allt frá áreiti og upp í hrottalegar nauðganir, og þetta er stærsta heilbrigðisvandamál kvenna í dag. Það verður auðvitað ekki leyst nema með verulegum fjárveitingum til málaflokksins og ég spyr því: Hvaða fjárveitinga er að vænta í flokkinn?

Svo þakka ég ráðherra aftur fyrir hennar framlag.