139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

[14:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hv. þm. Þuríður Backman nefndi að til stæði að fara yfir forsendur tillagnanna sem hér eru til umræðu og ræða þær við það fólk sem málið varðar. Hvers vegna í ósköpunum er ráðist í svo róttækar aðgerðir sem margt fólk á mjög mörgum stöðum vítt og breitt um landið túlkar sem hreina aðför að sínu byggðarlagi án þess að hafa farið í gegnum þessa umræðu með fólkinu?

Það er líka mikið talað um að þetta sé svo dýrt að við verðum bara nauðsynlega að gera þetta. Þá er ekki reiknað með öllum þeim kostnaði sem verið er að búa til með þessum grundvallarbreytingum, til að mynda, svo ég nefni bara eitthvert dæmi, kostnaði ættingja fólks sem þarf að leggjast inn á sjúkrahús í Reykjavík eða á Akureyri við að ferðast langa leið fram og til baka til að heimsækja ættingja sína. Slíkt er ekki nefnt og ekki heldur það sem er kannski langmesti kostnaðurinn í þessu sem eru þau áhrif sem þetta hefur á byggðarlögin og getur í raun orðið til þess að þau einfaldlega rakni upp. Þar missir fólk vinnuna, t.d. læknar og hjúkrunarfræðingar. Tökum dæmi af lækni sem á maka sem býr í sama byggðarlagi og er með vinnu þar sem kennari eða rekur lítið fyrirtæki. Hjónin flytja burt úr bænum, störf beggja tapast og allt sem þeim fylgdi, skatttekjurnar lækka, það verða færri eftir á staðnum til að kaupa mjólk og brauð í búðinni eða nýta sér aðra þjónustu, taka þátt í félagsstarfi o.s.frv. þannig að þetta leiðir af sér frekari keðjuverkun, þannig að smátt og smátt, raunar í þessu tilviki mjög hratt, dregst allt saman. Það er vegið að grundvelli byggða víða um land með þessari ótrúlega róttæku aðgerð sem felur í sér kerfisbreytingu sem er algerlega óeðlilegt og óásættanlegt að sé komið í gegn í gegnum fjárlagafrumvarp. En þetta er líka atriði fyrir höfuðborgina vegna þess að það er ekki búið að gera ráð fyrir því hvernig eigi að leysa úr öllum þeim flutningum (Forseti hringir.) sem eiga sér stað til borgarinnar. Þetta er sameiginlegt áhyggjuefni allra landsmanna sem verður (Forseti hringir.) að vinda ofan af.