148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (ber af sér sakir):

Herra forseti. Ég hefði kosið að hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefði beint orðum til mín og látið mig vita og kallað mig hingað upp þannig að ég gæti svarað fyrir mig. Hann tekur auðvitað orð mín úr samhengi en engu að síður er þetta kærkomið tækifæri til að ítreka það sem ég hef verið að tala um og koma því kannski skýrar frá mér. Það er ekki markmið að taka meiri gjöld en svo að útgerðin geti borið það, en það skiptir hins vegar líka máli að þjóðin fái hámarksafgjald af sameiginlegri auðlind sinni. Samfylkingin hefur einmitt, ásamt fleiri flokkum, lagt til breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem ganga út á það að útgerðin greiði það sem hún getur en ekki meira en það. Í góðu árferði borgar hún mikið, í lélegu lítið. Það er hægt að gera með útboði.

Varðandi samþjöppunina eru lög þar um og enginn vandi í rauninni að setja frekari kvaðir ef menn vilja það og ég talaði einmitt um að verja þyrfti hinar veiku byggðir. Það hefur fiskveiðistjórnarkerfið okkar ekki gert, þvert á móti er þetta blóðug saga þrjá, fjóra áratugi aftur í tímann, og við eigum að styrkja (Forseti hringir.) þær byggðir sem geta ekki byggt á fiskveiðum með öðrum hætti.