152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[17:58]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um menningarsjóði og menningarlífið. Við í minni hlutanum í fjárlaganefnd tókum eftir því að á þessu ári á að draga saman framlög í þessa sjóði á milli ára. Frá árinu 2020 hefur orðið samdráttur í menningarsjóðum um 1 milljarð kr., 400 milljónir núna á milli ára. Í hvers konar ástandi erum við í dag? Menningarlífið er í mjög erfiðum aðstæðum akkúrat núna þar sem menningarsjóðir hafa verið ákveðin lífsbjörg fyrir menningarlífið. Við gerðum alvarlegar athugasemdir við það í vinnunni að ekki væri horft til þess, sérstaklega í Covid, að styrkja þessa sjóði í staðinn fyrir að draga úr þeim kraftinn. Röksemdafærslan var sú að mikið af Covid-úrræðum væri að líða undir lok, Covid væri að líða undir lok. En hér sitjum við í dag öll með grímur. Við í Samfylkingunni greiðum atkvæði með þessari tillögu um að styrkja menningarsjóðina þar sem við vitum fyrir víst að menningarlífið mun þurfa aðstoð á komandi ári.