152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[19:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Þess var ekki að vænta að ríkisstjórnin yrði sérstaklega leiðandi í loftslagsmálum þegar við sáum kosningastefnuskrár flokkanna fyrir kosningar í haust. Þessi fjárlög sýna það ágætlega. Fjármunir til loftslagsmála eru ekki nærri nógir og á fimm ára fjármálaáætlun eiga þeir meira að segja að lækka strax á þarnæsta ári. Hér er lagt til að stíga örlítið skref í rétta átt. Það er ekki einu sinni nóg til að uppfylla þau markmið sem við þurfum að setja okkur. Mér sýnast stjórnarliðar ekki ætla að styðja það. Ég vona að það sé ekki eins og fyrir hálfu ári þegar stjórnarliðar felldu tillögu um að lögfesta sjálfstæð markmið í losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum sem er núna allt í einu orðin stefna ríkisstjórnarinnar, eins og hún hafi fundið upp á því. Vonandi fer fattarinn aðeins að styttast hjá þeim vegna þess að næstu ár skipta sköpum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og svona droll og gauf eins og ríkisstjórnin er með í þessum málum (Forseti hringir.) dugar ekki til. Það er bókstaflega glæpsamlegt gagnvart komandi kynslóðum.