145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tel að kanadadalur sé slæmt val eins mikið og mér þykir vænt um þann ágæta gjaldmiðil en hann er slæmt val fyrir Ísland vegna þess að íslenskur efnahagur og kanadískur efnahagur eru frábrugðnir og fjarlægir í efnahagslegum skilningi. Það er held ég meginástæðan fyrir því að menn aðhyllast evru.

Sumir vilja líta til bandaríkjadals en ég hef ekki heyrt nein ágæt rök fyrir því enn þá enda fylgja því miklir valkostir, auðvitað fyrst og fremst sá að við missum seðlabankavaldið. Ef við erum til dæmis með gjaldmiðil frá Norður-Ameríku þá er gjaldmiðilsstefnan í raun og veru í höndum seðlabanka tilheyrandi ríkja. Hið sama gildir vitaskuld um evruna. Við þetta tækifæri vil ég segja að ég tel, miðað við umræðuna hérna áðan, að þótt evran sveiflist miðað við bandaríkjadal þá sveiflast hún ekki innan svæðisins nema með innri sveiflu sem var nefnd hér áðan. Það er auðvitað bara þáttur af efnahagslegum samskiptum þjóða almennt og síst af öllu með sameiginlegan gjaldmiðil.

Burt séð frá því, ef við sjáum fram á að við höfum krónu og förum ekki í Evrópusambandið, hvernig telur hv. þingmaður að hægt sé að halda utan um krónuna og nota hana með sem skástum hætti? Það sem ég er að leita eftir er að við bilanagreinum íslensku krónuna svolítið. Hún virðist valda verðbólgu, hún hefur ýmis slík einkenni. Ég velti fyrir mér hvaða leið við höfum til að draga úr þeim einkennum, eins og verðbólgu. Að mínu mati verður verðbólga aldrei stöðvuð, eðlilega ekki, en við getum vonandi sleppt viðvarandi verðbólgu sem er svo einkennandi fyrir íslensku krónuna, sem dæmi, eða þá að við þurfum einhvers konar höft. Hefur hv. þingmaður einhverjar hugmyndir aðrar en að taka upp evru?