145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:35]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að einblína á að svara spurningu um Tobin-skattinn. Ég útiloka það ekkert, mér finnst þetta áhugaverð leið til að reyna að koma í veg fyrir ákveðnar meinsemdir í alþjóðlegu fjármálakerfi. Ég held að lykilatriðið sé að þetta séu fjölþjóðleg úrræði að enda ekki bara einhvern veginn ein þjóða með Tobin-skatt, ég held það. Í raun og veru finnst mér einmitt að því sögðu jafnvel mikilvægara að Íslendingar beiti sér fyrir því að ekki verði lengur til þessi skattaskjól sem eru jafnvel mjög nálægt okkur, í Lúxemborg og Hollandi, sem við erum að súpa seyðið af, sem menn eru að nota til að flytja auð úr löndum frá þeim stöðum þar sem sá auður skapast og frá þeim stöðum þar sem á að greiða af honum skatt. Þetta er vandamál í Bandaríkjunum, vandamál í Bretlandi og vandamál hér. Ef Tobin-skatturinn yrði ekki alls staðar þá yrði það náttúrlega líka — mig grunar nú kannski sömu löndin og eru með þessi skattaskjól til að hafa þá ekki heldur Tobin-skatt. Við mundum því kannski sjá bara enn meiri vandamál tengd skattaskjólunum ef þetta yrði ekki fjölþjóðlegt.

En með alþjóðlegt áhersluverkefni okkar finnst mér að við ættum að beina sjónum okkar, ásamt G-20 ríkjunum, að því að reyna að vinna bug á eða koma í veg fyrir undanskot til skattaskjóla.

Ég skil Tobin-skattinn þannig að hann eigi að vera stjórntæki. En á máli hv. þingmanns má heyra að þetta sé líka tekjuöflun, óhjákvæmilega kannski er hann það. Ef hann er stjórntæki þá vil ég benda á að vandi íslensks hagkerfis þegar kemur að fjármagnsflutningum hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum, svo mikill að okkur hefur hugkvæmst að leggja á 39% eignarskatt á eignir gamalla búa sem eru ekki einu sinni innleystar. Þetta er með ákveðnum hætti Tobin-skattur, að minnsta kosti á fyrri stigum (Forseti hringir.) átti þetta að vera skattur á fjármagnsflutninga.

Er vandi íslensks hagkerfis (Forseti hringir.) hvað varðar fjármagnsflutninga með litla krónu svo stór (Forseti hringir.) að Tobin-skattur yrði hér alveg ótrúlega hár ef hann ætti að virka sem stjórntæki? Það er stóra spurningin.