148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:27]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka flutningsmanni og meðflutningsmönnum fyrir að leggja þetta mál fram. Ég held að það sé afar gott og mikilvægt. Það hefur verið um það ágætisvilji í samfélaginu og ágætissamstaða í mjög langan tíma um að lengja þurfi fæðingarorlofið og taka á þeim vanda sem skapast hefur með því að við skulum ekki hafa stigið þetta skref fyrir lifandis löngu.

Hér í umræðunni hafa verið nefnd nokkur atriði þar að lútandi, til að mynda það bil sem verður þegar fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst að á leikskóla og það ósamræmi og sú ósanngirni sem liggur í því að bilið er mjög misjafnt á milli sveitarfélaga. Það getur jafnvel verið misjafnt á milli hverfa innan sama sveitarfélags. Það er afar óheppilegt. Það er því gleðilegt að þetta mál skuli vera lagt fram.

Í því samhengi er hins vegar rétt að minna hv. þingmenn á að á þessu þingi hafa þegar verið lögð fram önnur mál, eða að minnsta kosti eitt sem snýr að sambærilegum þáttum, þ.e. fæðingarorlofsmálum. Það er mál hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur sem snýr að fæðingaröryggi og slíkum þáttum. Það væri að mínu viti skynsamlegt að skoða þessa hluti í samhengi. Sennilega væri það verkefni hv. velferðarnefndar að finna flöt á málunum þannig að upp úr því væri hægt að gera eina allsherjarbragarbót á fæðingarorlofslögunum. Ég held að við séum öll sammála um að gera þurfi endurbætur, að bregðast þurfi við því að fæðingarorlofið hjá okkur er allt of stutt.

Eins og komið hefur fram í umræðunni er getið um þetta mál í stjórnarsáttmálanum. Hv. flutningsmaður Logi Einarsson nefndi að þó að það væri í stjórnarsáttmálanum væri betra að þingið drifi þetta af á undan og kláraði málið. En þá kemur aftur að því sem við megum heldur ekki gleyma, það eru mjög mikilsverðir aðilar úti í samfélaginu sem málið varðar gríðarlega mikið, þ.e. sveitarfélögin, aðilar vinnumarkaðarins og fleiri. Þar þarf samtal að eiga sér stað. Ég held að það samtal hafi að hluta þegar átt sér stað, eins og hv. þingmaður nefndi áðan. En engu að síður þurfum við að skoða þetta. Nefndin mun væntanlega eiga samtöl við ofangreinda aðila.

Það er mjög bagalegt að ekki skuli vera nein brú, engin tenging á milli leikskólans og fæðingarorlofsins. Margir hafa gagnrýnt að eins og staðan er núna skuli það vera alfarið sett í hendur sveitarfélaganna að hreinlega bara meta það: Eigum við að vera að skipta okkur af þessu, eigum við eitthvað að vinna í þessum málum? Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að löggjafinn komi þar að og ræði það, en í góðu samráði.

Ég hef alltaf talið að rétturinn til fæðingarorlofs sé í grunninn réttur barnsins. Ég er að því leyti til sammála hv. þm. Halldóru Mogensen í því sem fram kom í andsvari hennar áðan, að það sé mjög mikilvægt að reyna með öllum ráðum að horfa til þess að hvert barn fái 12 mánuði með foreldrum sínum og að það sé að eins litlu leyti og hægt er valkvætt að stytta þann tíma, hvort heldur með því að annað foreldri neiti sér hreinlega um að taka fæðingarorlofið eða að barnið einhverra hluta vegna njóti aðeins við annars foreldris og fái ekki fulla 12 mánuði. Ég held að á því þurfi sannarlega að taka í nefndarstarfinu því að ég er sannfærður um að öll börn eigi að njóta þessa réttar. Það sé á endanum ekki bara mikilvægt fyrir börnin heldur líka fyrir fjölskylduna og samvistir innan fjölskyldunnar.

Það leiðir hugann að því hvað við gætum gert annað í þeim efnum, eins og að stytta vinnuvikuna og fleira sem rætt hefur verið.

Hv. flutningsmaður nefndi áðan að þetta væri líka mikið jafnréttismál. Það er rétt. Það á að vera sameiginlegt verkefni okkar sem erum í stjórnmálum að finna leiðir til að „knýja“ feður til að taka fæðingarorlof í meira mæli en verið hefur og fá þá til að taka meira af valkvæða tímanum eftir atvikum. Því að ég held að það sé mjög mikilvægt. Hækkun á fæðingarorlofsgreiðslum hefur verið nefnd í því sambandi. Það þurfi þá að lyfta þakinu í þeim efnum.

Auðvitað mun hv. velferðarnefnd fara vel yfir málið og finna fleti á því og jafnvel leitast við að gera heildarbragarbót á málunum. Ég tel það mjög mikilvægt. Ég hlakka til að fá málið í nefndina. Ég treysti því að fulltrúar í nefndinni séu nokkurn veginn á sama máli og þeir sem hér hafa talað, þ.e. að menn séu sammála um að þetta sé gott mál. Við þurfum að reyna að leysa það sem allra fyrst.