152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem er hér um heilbrigðiskerfið okkar. Það er alveg ljóst að við stöndum öll með heilbrigðiskerfinu og spítalanum, eins og hér er lagt til. Ég vil bara draga fram samhengið hér í ljósi umræðunnar. Þessi ríkisstjórn hefur staðið með heilbrigðiskerfinu og mætt því aukna álagi sem birtist í Covid-faraldrinum, sem er sannarlega mikið. Ég vil bara draga fram samhengi hlutanna hér. Fyrir 2017 fóru u.þ.b. 60 milljarðar í Landspítalann. Þeir eru komnir í 90 og aukast um 10 milljarða inn á þetta ár, þeirra fjárlaga sem við erum að samþykkja hér. Það er um 13% aukning. Talandi um reiknað raunálag, þá er raunhækkunin yfir 3%. Það er hærra en það raunálag sem verið er að vísa til hér. Það er rétt að búið er að ráðstafa þessu raunálagi, m.a. til að létta álagið á spítalanum, í hágæslurými og sóttvarnahús og fleira.

Svo vil ég bara segja að lokum að miðað við þessar tölur og fjáraukalagafrumvarpið sem við samþykktum í gær, (Forseti hringir.) þar sem við mætum öllum auka Covid-kostnaði á Landspítalanum, (Forseti hringir.) þá er eitthvað skrýtið ef það er ekki staðfesting á því að við stöndum öll með spítalanum.