Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

breytingar á aðalnámskrá í grunnskóla.

52. mál
[13:40]
Horfa

Flm. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Það að geta lesið sér til gagns er grunnfærni í lífinu, lykill að námi, þekkingarleit og þekkingarþróun hvers einstaklings. Tillagan sem ég legg hér fram, um breytingar á aðalnámskrá grunnskóla, var áður lögð fram á 152. löggjafarþingi, 562. mál, en náði ekki fram að ganga. Hún er því lögð fram að nýju óbreytt. Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra að innleiða hugmyndafræði verkefnisins Kveikjum neistann og gera eftirtaldar breytingar á aðalnámskrá grunnskóla:

a. Að leggja áherslu á bókstafa-hljóðaaðferð við lestrarkennslu.

b. Að innleiða í stað leshraðamælinga stöðumatspróf með bókstafa-hljóðaaðferð, lesskilningspróf og mat á skriflegum texta.

c. Að leggja áherslu á að hver nemandi fái áskoranir miðað við færni.

Við innleiðingu framangreindra breytinga verði haft samráð við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar og samtök kennara.“

Mennt er máttur. Góð menntun er það besta sem við getum gefið börnum okkar til að undirbúa þau fyrir lífsins þrautir. Hver er staðan í lestrarkunnáttu barna og ungmenna á Íslandi? Rannsóknir sýna að 39% barna, eftir 2. bekk grunnskóla í Reykjavík árið 2019, séu ekki að lesa sér til gagns. Við höfum því miður ekki upplýsingar úr öðrum sveitarfélögum en þetta eru 39%, eftir 2. bekk grunnskóla í Reykjavík, sem eru ekki að lesa sér til gagns. Rannsóknir sýna einnig að 38% 15 ára unglinga ná ekki grunnfærni í lesskilningi og stærðfræði. Þetta er könnun UNESCO 2020. Rannsóknir sýna einnig að 34% drengja og 19% stúlkna lesi sér ekki til gagns eftir tíu ára grunnskólanám, samkvæmt PISA 2018. Rannsóknir sýna einnig að 15 ára börn norskra og danskra innflytjenda, samkvæmt PISA 2018, skora hærra í lesskilningi en íslenskir drengir á sama aldri og unglingar á Suðurnesjum, Vesturlandi og á Norðurlandi eystra. Rannsóknir sýna einnig að 92,5% innflytjenda eru á rauðu og gulu ljósi hvað varðar íslenskukunnáttu, kunna sem sagt ekki íslensku. Þetta er samkvæmt skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar árið 2019. Rannsóknir sýna einnig að 10,8% af 19 ára ungmennum, 500 einstaklingar, voru hvorki í námi né starfi árið 2020, samkvæmt skýrslu ASÍ. Þessar tölur tala sínu máli um lestrarkunnáttu barna og ungmenna hjá sjálfri bókaþjóðinni, hjá þjóð sem stærir sig af því að vera ein helsta bókmenntaþjóð heims. Það byggir á arfleifð frá miðöldum. Við erum með gríðarlegan arf frá höfundum eins og Snorra Sturlusyni og Sturlu Þórðarsyni o.fl. og það er okkar framlag til heimsmenningarinnar. En staðreyndirnar tala öðru máli í dag hvað varðar stöðu bókaþjóðarinnar þegar kemur að lestrarkunnáttu og lesskilningi barna og ungmenna. Ástandið er hrikalegt svo að ekki sé meira sagt.

En hvað er verið að gera í málinu? Það er sáralítið. Ég spurði hv. barna- og menntamálaráðherra að því, undir fjárlagaumræðunni fyrir nokkrum vikum, hvað hann ætlaði að gera til að bæta ástandið til framtíðar. Það var ansi fátt um svör, hefðbundið ráðherrasvar eins og við þekkjum það hér í þingsölum. Samfélagsumræða um þetta gríðarlega brýna mál er mjög mikilvæg og það verður að fara að opna umræðuna um það ástand sem er í grunnskólum landsins. Við erum að bregðast börnum og ungmennum á Íslandi, svo einfalt er það.

Hver ber ábyrgð á þessu ástandi á endanum? Hver ber ábyrgð á ástandinu í þingræðisríki? Hver er það? Hvaða stofnun er það? Jú, það er Alþingi Íslendinga sem ber ábyrgð á þessu ástandi á endanum. Það getur vel verið að einhverjir aðrir séu við völdin í litla íslenska klíkusamfélaginu sem eru að stjórna þessu en á endanum er það Alþingi Íslendinga sem verður að taka af skarið og leysa málið. Það hafa aðrar þjóðir gert eins og ég mun víkja að síðar.

Svo að ég víki að framkvæmdarvaldinu eru fræðslumál barna og ungmenna á ábyrgð barna- og menntamálaráðherra innan Stjórnarráðs Íslands samkvæmt forsetaúrskurði, þar á meðal á námskrá og námsgögnum og ábyrgð á læsi og lestrarkennsluaðferðum í landinu. Æðsti yfirmaður menntamála í landinu, í skjóli Alþingis, er hæstv. barna- og menntamálaráðherra. Það er hann sem ber ábyrgð á því fyrir hönd framkvæmdarvaldsins hver lestrarkunnátta barna og ungmenna er. Það er hann sem ber ábyrgð á því ástandi sem lýst er í þeim könnunum sem ég vitnaði í áðan.

Þessi slaki árangur Íslands í PISA-könnunum undanfarna áratugi hefur vakið athygli fræðimanna og margir hafa kallað eftir breytingum í lestrarkennslu. Þar ber helst að nefna Hermund Sigmundsson, prófessor í lífeðlisfræðilegri sálfræði við háskólann í Þrándheimi. Hermundur hefur lagt mikla áherslu á að íslenskt menntakerfi taki mið af fremstu vísindum til að þróa bætta aðferðafræði við lestrarkennslu. Í júní 2021 undirrituðu Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands samning um stofnun rannsóknarseturs um menntun og hugarfar og var Hermundur skipaður í stjórn setursins. Setrið stendur fyrir rannsóknum á sviði menntunar með áherslu á menntun, færni og hugarfar í þeim tilgangi að skapa nýja þekkingu íslensku samfélagi til hagsbóta. Á vegum rannsóknarsetursins er nú unnið að rannsóknar- og þróunarverkefninu Kveikjum neistann. Verkefnið er langtímaþróunar- og rannsóknarverkefni í grunnskóla Vestmannaeyja. Með því er innleidd ný nálgun í lestrarkennslu og nú er farið eftir þeirri nálgun í 1. bekk grunnskóla Vestmannaeyja. Áhersla er lögð á að einfalda lestrarlíkanið en samkvæmt því skiptir öllu að lestur byggist á umskráningu og málskilningi, ekki hraða. Markmið verkefnisins er að 80–90% barna séu fulllæs eftir 2. bekk. Fyrstu tölur gefa til kynna góðan árangur en samkvæmt þeim höfðu 93,6% barna í 1. bekk brotið lestrarkóðann strax í janúar, 78% barna gátu lesið setningar með stórum bókstöfum.

Það er augljóst mál, það segja þessar niðurstöður og kannanir sem ég las upp hér áðan á lestrarþekkingu barna og ungmenna, að ríkjandi lestrarkennsluaðferðir í grunnskólum eru ekki að skila nógu góðum árangri. Það er algjörlega deginum ljósara. Niðurstöðurnar sanna það. Það getur vel verið að einhver stingi hausnum í sandinn og telji að þetta sé bara allt í besta lagi en svo er einfaldlega ekki. Þörf er á aðgerðum til að kalla fram betri árangur. Í aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um meginmarkmið náms og kennslu, uppbyggingu og skipan náms, svo og hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina, auk fleiri atriða. Með því að gera viðeigandi breytingar á aðalnámskrá og skipuleggja lestrarkennslu til samræmis við nýjustu þekkingu og vísindi má stuðla að bættri lestrarkennslu. Þetta er nákvæmlega það sama og aðrar þjóðir hafa gert, þ.e. að nota þá aðferð sem hér er lögð til, sem er bókstafa-hljóðaaðferðin við lestrarkennslu. Bretar hafa innleitt þetta í lög. Hvenær gerðu þeir það? Jú, þeir gerðu það eftir að rannsóknir sýndu, það kom fram í ákveðinni skýrslu, fram á að lestrarþekking barna og ungmenna var algjörlega ófullnægjandi. Þá innleiddu þeir það í lög hvaða lestrarkennsluaðferð skyldi beitt á Bretlandi. Frakkar hafa gert það sama. Þetta eru helstu menningarþjóðir Evrópu. Ef einhverjum hefur dottið í hug að Íslendingar gætu fundið upp hjólið hvað þetta varðar, hvernig eigi að kenna börnum að lesa, þá er það einfaldlega rangt. Ég veit að við erum lítil smáþjóð og viljum vera fremst í heimi á öllum sviðum en það er deginum ljósara að þegar kemur að lestrarkennslu verðum við að beita alþjóðlega viðurkenndum aðferðum sem fræðimenn úti í heimi hafa skrifað um hundruð fræðigreina. Það þýðir ekki að við séum að búa til okkar eigin lestrarkennsluaðferð og rúlla því út í tugi skóla. Árangurinn talar sínu máli. Það verður að fara að gera eitthvað í þessum málum. Það bara verður að fara að gerast. Við getum ekki horft upp á það að 39% barna, eftir 2. bekk grunnskóla í Reykjavík, séu ekki að lesa sér til gagns. Við getum ekki heldur horft upp á það að 38% 15 ára unglinga nái ekki grunnfærni í lesskilningi. Við getum það einfaldlega ekki. Við getum ekki heldur horft upp á það að 34% drengja og 19% stúlkna lesi sér ekki til gagns eftir tíu ár í grunnskóla. Við eigum ekki að gera ekki neitt.

Allir sem læra að lesa á Íslandi læra að lesa heima hjá sér, hjá foreldrum sínum. Það er þaðan sem aðhaldið kemur. En svo eru ákveðin börn sem hafa ekki þetta aðhald og geta ekki lært að lesa heima hjá sér, hjá foreldrunum eða afa og ömmu, og þá þarf skólakerfið að taka við. Árangur skólakerfisins talar sínu máli, svo einfalt er það. Það að 15 ára börn norskra og danskra innflytjenda, samkvæmt PISA-könnun 2018, séu að skora hærra í lesskilningi en íslenskir drengir á sama aldri og einnig unglingar á Suðurnesjum, Vesturlandi og Norðurlandi eystra hlýtur að kalla á einhverjar umræður. Það verður einhver að vekja athygli á þessu og segja að ástandið sé algerlega ófullnægjandi. Og það er með ólíkindum að halda því fram að það að 92,5% innflytjenda séu á rauðu og gulu ljósi hvað varðar íslenskukunnáttu, kunni sem sagt ekki íslensku, sé bara allt í lagi og við eigum ekki að gera neitt. Það sama á við um það að 10,8% 19 ára ungmenna séu hvorki í námi né starfi árið 2020. Það er algerlega ófullnægjandi. Menntakerfið er bara einfaldlega ekki að standa sig. Svo einfalt er það.

Það er kominn tími til þess að hæstv. barna- og menntamálaráðherra fari að taka af skarið og koma með einhverja áætlun um það hvað hann ætlar að gera í framtíðinni varðandi lestrarkennslu og lestrarþekkingu í landinu. Hér er um mjög einfalt mál að ræða. Það er einfaldlega verið að leggja það til að innleiða hugmyndafræði verkefnisins Kveikjum neistann í aðalnámskrá grunnskóla. Það er ráðherra sem setur aðalnámskrá grunnskóla, enginn annar. Það að leggja áherslu á bókstafa-hljóðaaðferð við lestrarkennslu er hin alþjóðlega viðurkennda aðferð. Núverandi lestrarkennsluaðferðir eru ekki að skila nægilegum árangri, svo það sé sagt skýrt út. Umræðuleysið um þessi mál er með hreinum ólíkindum. Ég hef kannski búið of lengi erlendis, en ég get lofað ykkur því að í 5 milljóna samfélagi eins og Noregi yrði allt brjálað ef slíkar niðurstöður kæmu fram, allt vitlaust. Samfélagið myndi líta þannig á að við værum að verða útundan, værum að verða eftirbátar annarra þjóða. Þetta virðist bara vera eins og Halldór Laxness sagði: Þetta fer allt einhvern veginn á Íslandi, það bara gerir það. Sólin kemur upp á morgun, þetta reddast; og svo er bara fengið sér kaffi.

Þessi aðferð er alþjóðlega viðurkennd og það er algjört grundvallaratriði að hún verði innleidd sem allra fyrst. Við megum engan tíma missa í þessu máli. Alþingi Íslendinga er að bregðast börnum og ungmennum svo að það sé algerlega skýrt og ráðherrar líka. Það erum við sem erum að bregðast, enginn annar. Það erum við sem berum ábyrgð, þessi stofnun í þingræðisríki, það er Alþingi Íslendinga sem ber ábyrgð á gangi mála, enginn annar. Það er ekki eitthvert fólk úti í bæ sem er búið að taka völd og er að innleiða einhverjar allt aðrar aðferð sem hafa ekki sýnt sig að standist. Það er bara ekki þannig. Það er þessi stofnun hér sem þarf að taka af skarið um það hvernig á að kenna börnum að lesa. Enginn annar. Það er ráðherra og enginn annar sem ber að setja þetta í aðalnámskrá. Þetta er alþjóðlega viðurkennd aðferð. Tvær helstu menningarþjóðir Evrópu eru með lög um að nota þá lestrarkennsluaðferð sem hér er talað um, bókstafa- og hljóðaaðferðina, og eru með lög um að svona skuli kenna börnum að lesa og ekki með öðrum hætti. Við eigum að gera það sama.