138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona alla vega að hv. þingmaður eigi ekki við mig. Ég get fullvissað hana um að svo er ekki. Ég sef alveg sallarólegur á nóttunni og vakna glaður á morgnana óháð Davíð Oddssyni. Mér býður í grun að hann sé ritstjóri Morgunblaðsins, svona miðað við það hvernig hlutir eru lagðir þar upp, þá sjaldan sem ég sé það blað núorðið, en að öðru leyti hef ég ekki áhyggjur af honum. (Gripið fram í.) Það eru aðrir og stærri og alvarlegri hlutir á Íslandi dagsins í dag sem ég hef áhyggjur af og valda mér (Gripið fram í.) stundum andvökum, svo sem eins og það hvernig þjóðarbú okkar kemst út úr þessum erfiðleikum og hvernig okkur öllum vegnar í þeim efnum. Um það erum við væntanlega öll sammála. Ég er sammála hv. þingmanni í því efni að við þurfum að fara að horfa í ríkari mæli til framtíðar. Ég hef m.a. verið að reyna að skrifa svolítinn kjark í þjóðina og segja að nú fari þetta að ganga betur og stappa í menn stálinu.

En hitt er jafnljóst að við verðum að klára tiltekin mál, gera þau upp og leiða þau í jörð. (Gripið fram í.) Já, já, okkur miðar vel í þeim efnum í þessu viðamikla starfi, en við komumst aldrei frá þessum atburðum sem þjóð nema með því að horfast heiðarlega í augu við okkur sjálf, (Gripið fram í.) líta í spegilinn, (Forseti hringir.) viðurkenna mistök okkar og (Gripið fram í.) gera það sem þarf til að útkljá það. Þá er það búið og þá getum við haldið áfram glöð (Forseti hringir.) okkar veg.