145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:51]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í nefndaráliti minni hlutans er áhugaverð mynd af framlögum til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þar sést að hlutfallið er gríðarlega hátt árið 2008, kemur væntanlega til af því að menn hafa verið búnir að fara í framkvæmdir þegar hrunið verður og þjóðarframleiðslan minnkar mikið á því ári. Það er samt sem áður athyglisvert að sjá hvað framlagið er hátt 2009, í rauninni líka 2010. Auðvitað er ég ekki alveg viss, en ég ímynda mér að árið 2008 sé þetta að einhverju leyti vegna þess, þó að landsframleiðslan minnki mjög mikið í lok árs, að menn eru búnir að fara í framkvæmdirnar, það er náttúrlega byrjað í janúar og haldið áfram út allt árið þótt menn hafi örugglega dregið úr þeim undir lokin. Mér finnst athyglisvert að sjá hvað hlutfallið hefur þrátt fyrir allt verið hátt árin 2008, 2009 og 2010. Nú erum við rétt á pari við kannski 2011 þrátt fyrir að ríkissjóður sé í nokkuð góðum málum.

Í nefndarálitinu má líka sjá töflu yfir fjölda ferðamanna. Það sem hefur gerst er að á tíu árum fjölgar ferðamönnum úr rúmlega 440.000 í tæplega 1,2 milljónir. Þessir ferðamenn nýta eflaust í mjög miklum mæli þjóðvegi landsins. Allir þurfa þeir að komast frá Keflavík til Reykjavíkur og svo eru það ferðir úti um allt og kannski mundum við vilja fá meira af þeim út á land. Mér finnst algjörlega óásættanlegt hvað hlutfallið er lágt miðað við hvað umferðin hefur aukist og hvað við erum komin líka í mikla viðhaldsþörf líka og einbreiðu brýrnar og allt það. Hvað finnst hv. þingmanni um það?