145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:51]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Aðalatriðið í mínum málflutningi hefur verið að við ætlum að halda þeim stöðugleika í ríkisrekstri sem hefur verið náð. Þegar haldið er á málum eins og gert hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar verður til afgangur af opinberu fé sem hægt er að ráðstafa í ýmis verkefni á vegum samfélagsins. Þar skora samgöngur að sjálfsögðu mjög hátt. Eins og ég fór inn á í ræðunni eru samgöngur grundvallaratriði fyrir byggð og atvinnuþróun í landinu. Þær skipta mjög miklu máli fyrir fólk sem þarf að ferðast á milli staða, að það sé öruggt í sínum farartækjum, hvort sem það er gangandi, hjólandi eða á bílum, að umferðaröryggi sé tryggt. Það segir sig sjálft að samgöngumál eru eitthvert stærsta samfélagsmálið sem við þurfum að hafa hér í góðu lagi.

Ég hef sagt að ef ég á að forgangsraða vil ég sjá að heilbrigðismálunum verði gert hæst undir höfði núna þegar staða ríkissjóðs er orðin með þeim hætti að við eigum fjármagn til að gera hlutina. Ég neita því samt ekki að samgöngur verða að fylgja þar fast á eftir. Það sem mér finnst skipta mestu máli varðandi samgöngumál er að við höldum við þeim samgöngumannvirkjum sem við erum þó búin að fjárfesta í á undanförnum árum, eyða gríðarlegum fjármunum í að búa til til þess að efla samgöngur, áður en við förum í nýframkvæmdir og látum á meðan grotna niður það sem við erum þegar búin að reisa.