145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

kveðjuorð.

[17:56]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það er okkur öllum ljóst sem starfað höfum með hv. þingmanni, hvort sem er um lengri eða skemmri tíma, að hér eru mikil tímamót. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sett sitt mikla mark á störf þingsins frá þeim fyrsta degi sem hann steig hér inn fyrir veggi þinghússins sem kjörinn þingmaður á Alþingi Íslendinga. Forseti verður að leyfa sér að vera dálítið persónulegur í þetta skipti og hverfa dálítið frá formlegum aðferðum við að mæla af forsetastóli og vill persónulega færa hv. þingmanni miklar þakkir fyrir samstarfið og átökin sem við höfum átt hér í sölum Alþingis og á vettvangi Alþingis að öðru leyti.

Það verður að segjast eins og er að hv. þm. Ögmundur Jónasson var erfiður andstæðingur en góður vinur. Það er þannig að þegar við lítum yfir feril Ögmundar Jónassonar — og ég tel nú enga ástæðu til þess að skrifa um hann einhver lokaorð á hinu pólitísku sviði, því við sem hann þekkjum vitum að hann á örugglega margt ósagt í þeim efnum þó þau orð og hans athafnir verði utan þinghússins. Það breytir því ekki að hv. þingmaður hefur auðvitað meðal annars ekki síst markað sérstöðu sína í því að hann hefur alltaf verið mjög einarður talsmaður sinna sjónarmiða og sinnar hugmyndafræði og hefur sjaldan sveigt af leið undan hinni pólitísku dægursveiflu. Nú langar forseta að leiðrétta sín orð og segja: Hefur aldrei sveigt af leið undan hinni pólitísku sveiflu.

Stjórnmálin eru sérkennileg fyrir margra hluta sakir. Við vitum það, sem setið höfum á Alþingi, að pólitísk samleið manna og samleið manna ræðst ekki endilega af hinum pólitísku línum. Svo undarlegt sem það er hef ég á síðustu dögum verið að gera mér betur grein fyrir því að þrátt fyrir að við höfum aðhyllst ólíka pólitíska hugmyndafræði og viljað tala fyrir ólíkri pólitískri hugmyndafræði þá hafa leiðir okkar hv. þm. Ögmundar Jónassonar ekki eingöngu legið saman í góðum persónulegum kynnum okkar, heldur líka á hugmyndasviðinu, líka í hinni pólitísku baráttu þar sem það undarlega hefur gerst að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa átt góða samleið í mörgum málum.

Ég vil á þessari stundu sérstaklega sem þingforseti þakka hv. þingmanni fyrir það mikla starf sem hann hefur unnið sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og get borið um það vitni að hv. þingmaður hefur verið mjög metnaðarfullur fyrir hönd þeirrar nefndar að skapa henni ærlegan sess í þinginu og þinghaldinu og að mínu mati unnið þar gríðarlega gott verk.

Ég vil sem forseti Alþingis og gamall og góður vinur óska hv. þingmanni, og fjölskyldu hans, allra heilla á þessum miklu tímamótum og óska honum velfarnaðar og hans fjölskyldu í framtíðinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)