138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:19]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni í mörgu því sem hann tekur fram enda liggja vonir okkar einhverra hluta vegna saman á mörgum sviðum eins og kemur kannski fram í nefndastarfi Alþingis. Ég vil geta þess að auðvitað er hafa þær breytingar sem hér er krafist ekki enn þá gengið eftir í langflestum tilvikum.

Núverandi ríkisstjórn stendur frammi fyrir gríðarlegum vanda og hefur einsett sér að leysa hann. Það hefur kannski verið forgangsverkefni framkvæmdarvaldsins að reyna að leysa han. Ég hef reyndar gagnrýnt það hversu hægt hefur gengið á vissum sviðum en það er önnur saga. Það á hins vegar að vera Alþingis að hafa frumkvæði að breytingunum. Ég vil ekki að framkvæmdarvaldið komi inn með breytingar í anda þess sem segir í skýrslunni heldur að þingið sjálft og þingið breyti þar með framkvæmdarvaldinu. Tek ég undir allar góðar hugmyndir í þá átt að skera á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Ég geld reyndar varhuga við síðari tíma hugmyndum um að slengja saman dómsvaldi og löggjafarvaldi eins og við komum kannski að í þingstörfum næstu daga. Almennt finnst mér að þingið þurfi að hafa frumkvæði og framkvæmdarvaldið á augljóslega ekki frumkvæði að þessu vegna þess að það lifir að einhverju leyti í vernduðu umhverfi sínu. Alþingi hefur nú umbótaplan sem það á að einhenda sér í að fylgja eftir og framkvæma þannig að framkvæmdarvaldið breytist. Þar held ég að verkefni okkar liggi og blasi við. Frumkvæðið verður að vera þingsins en ekki framkvæmdarvaldsins.