139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands við 2. umr. Mig langar í ræðutíma mínum að fara aðeins yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á því, velta fyrir mér af hverju þær hafa verið gerðar og af hverju aðrar hafa ekki verið gerðar.

Ég vil í upphafi segja, frú forseti: Breytingar á Stjórnarráði Íslands eiga að vera þingmönnum meira mál en svo að við körpum um það fram á nótt, kvöld eftir kvöld. Breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands eiga líka að vera svo vandaðar og vel gerðar að þær kalli ekki á endurteknar breytingar, eins og hefur sýnt sig frá komu þessarar ríkisstjórnar 2009 og fram til dagsins í dag. Þær eiga líka að vera þannig gerðar að af þeim leiði ekki pólitísk rimma vegna þess að aðrar ríkisstjórnir eiga að geta gengið að skýrum lögum um Stjórnarráð Íslands og við ætlum ekki að hafa það þannig að ef hér skiptir um ríkisstjórn breytum við lögum um Stjórnarráð Íslands.

Menn hafa í umræðunni rætt um hvort frumvarpið sé með einhverjum hætti í takt við það sem komið var inn á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og í skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um fyrri skýrsluna. Það er ljóst að í skýrslu þingmannanefndarinnar stendur m.a., og var sett í þingsályktunartillögu sem samþykkt var af Alþingi að mig minnir 28. september 2010, að lög um Stjórnarráð Íslands, stjórnsýslulög, upplýsingalög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna skuli endurskoðuð. Þetta mál er væntanlega hluti af því sem núverandi meiri hluti telur vera innlegg í þá umræðu og það er rétt. En grunntónninn í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og grunntónninn í skýrslu þingmannanefndarinnar var að menn ynnu að slíkum málum saman og kæmu sameiginlega að niðurstöðu um ákveðnar grundvallarbreytingar svo að um þær mætti ríkja sátt.

Í upphafi var fjöldi ráðuneyta tilgreindur í 2. gr. frumvarpsins. Í breytingartillögum frá meiri hluta allsherjarnefndar er ákveðið að fella brott þann tilgreinda fjölda og nú, ef frumvarpið nær fram að ganga í þeirri mynd sem það er sett fram hér með breytingartillögum, verður fjöldi ráðuneyta ekki tilgreindur, hvað þá heiti þeirra.

Ég vil hins vegar, frú forseti, fagna breytingu meiri hluta allsherjarnefndar á 1. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ráðherrar starfa í umboði Alþingis.“

Ég fagna þeirri breytingu, ég held að hún styrki þingræðisregluna og það er vel. Hins vegar get ég ekki fallist á 2. gr. eins og hún er sett fram hér, þar sem framkvæmdarvaldinu er það afhent, alfarið og óskilgreint, hversu mörg ráðuneytin eiga að vera, hversu margir ráðherrar eiga að sitja og ég get ekki fallist á að það komi aldrei til kasta Alþingis að fjalla um það né heldur að framkvæmdarvaldið þurfi ekki að leita til Alþingis og meiri hlutans að baki ríkisstjórninni sem ríkir hverju sinni, en oftar en ekki höfum við setið hér með meirihlutaríkisstjórnir, eftir samsinni á því sem það á síðan að bera ábyrgð á.

Frú forseti. Nú sitja menn og ræða um það, í ýmsum herbergjum þessa ágæta húss, hvernig hugsanlega er hægt að ná samkomulagi um breytingar á 2. gr. og 4. gr. Það segir mér að við hefðum átt að gefa okkur lengri og betri tíma, eyða meiri tíma í málið og vinna það betur til þess að það kæmi hingað í þokkalegri sátt.

Menn hafa spurt hvort við, sem setjum fyrirvara við 2. og 4. gr., teljum að löggjafarvald í Noregi, Danmörku og Svíþjóð sem og alþingi þeirra, sem heita reyndar ekki Alþingi heldur öðrum nöfnum sem þarf ekki að tíunda hér, hvort löggjafarvald og löggjafarþing þeirra séu veikari vegna þess að í stjórnskipun stjórnarráðanna þar er farin sú leið sem reynt er að fara hér. Það kann að vera að við náum einhvern tíma þeirri ögun að löggjafarvald okkar og samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds í samræðulistinni á þinginu sjálfu verði líkt og gerist á Norðurlöndum en við eigum langt í land með það nú. Þegar slíkar hugmyndir koma fram þá er þetta borið að jöfnu og ætlast til að þingmenn gleypi þetta hrátt af því að hlutirnir séu svona á Norðurlöndum og hafi gefist vel og það sé okkar að samsinna því að svona viljum við hafa það hér. En við þurfum í fyrsta lagi, frú forseti, að gefa okkur lengri tíma til að ræða málin og við þurfum í öðru lagi að vera sammála um að þannig viljum við skipa málum. Ég held að það skipti meginmáli.

Það kann að vera skynsamlegt að búa til eitt atvinnuvegaráðuneyti, eins og menn hafa rætt um, það væri þá einn ráðherra atvinnumála eða atvinnuvega. Í sama ráðuneyti væri síðan annar ráðherra einhverra undirmála eða kannski væru þeir jafnstæðir innan ráðuneytisins. Við getum tekið dæmi um annað stórt og mikið ráðuneyti, velferðarráðuneytið, sem hefur með málefni fatlaðra að gera, málefni aldraðra, almennar tryggingar og sjúkratryggingar m.a. Yrði þá hugsanlega einhver velferðarráðherra og síðan ráðherra um málefni fatlaðra, ráðherra um málefni aldraðra og ráðherra um málefni sjúkratrygginga? Áður en menn fara í slíkar breytingar þarf í það minnsta að ræða þær betur en við höfum gert hingað til.

Það er ekki þar með sagt að maður sé í eitt skipti fyrir öll að segja að maður sé ekki tilbúinn til að ganga þau skref sem hér eru lögð fram. En í mínum huga verður það að vera með einhverjum hætti þannig að Alþingi Íslendinga, löggjafarvaldið sjálft sem ber samkvæmt breytingartillögum meiri hluta allsherjarnefndar ábyrgð á ráðherrum, hafi að minnsta kosti hugmynd um það í upphafi og geti samsinnt því hver ráðuneytin verða og hversu margir ráðherrar eiga að starfa í umboði Alþingis.

Ég ætla mér ekki að falla í þá gryfju hér, frú forseti, að ræða um einræðistilburði eða að frumvarpið sé lagt fram til höfuðs einstökum ráðherrum. Mér finnst slík umræða í versta falli barnaleg og ekki hæfa að þingmenn ræði málin á þeim grunni. Við verðum, hvort heldur við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að virða það að við erum ekki sammála um alla hluti og við getum ekki vænt hvert annað um að það sem við erum að velta fyrir okkur í hvert skipti sem við tölum sé eitthvað annað en akkúrat það sem við erum að segja.

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi á að setja ákveðinn eldvegg, ef svo mætti að orði komast, á milli pólitískt ráðinna aðstoðarmanna í ráðuneytum og pólitískra teyma af einhverju tagi annars vegar og embættismanna sem ráðnir eru með öðrum hætti. Ég fagna þessu og tel þetta af hinu góða. Þetta mun væntanlega, eins og hér hefur komið fram, styrkja stöðu ráðherrans í stefnumótun í ráðuneyti sínu því að það gefur augaleið, og þarf engan sérfræðing til að sjá það, að ráðherrar koma með sína pólitísku sýn í ráðuneytin. Það er alveg ljóst að hverfi þessi ríkisstjórn — eða ég leyfi mér að segja, þegar hún hverfur — kemur væntanlega önnur ríkisstjórn sem hefur aðra sýn á ýmsa málaflokka og ráðherrar hennar munu breyta hinni pólitísku stefnu. Þess vegna er gott að það sé kominn eldveggur á milli embættismannanna og pólitískt ráðinna aðstoðarmanna.

Ég tel ekkert að því að ráðherrar sem koma inn í ríkisstjórn geti haft með sér ákveðið pólitískt teymi. Við höfum séð það í gegnum tíðina með svokölluðum aðstoðarmönnum og ýmsum öðrum sérfræðingum sem ráðnir hafa verið. Það sem hefur hins vegar kannski ekki verið af hinu góða er að þeir sömu aðilar og ráðnir voru pólitískt, bæði fyrr og nú, hafa orðið eftir í ráðuneytinu þegar ráðherrann fer.

Mér finnst skorta í þetta frumvarp um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands eitt af því sem skipti meginmáli í niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem talað var um að stjórnsýslan á Íslandi væri veik. Ég sé ekki alveg, þrátt fyrir þennan eldvegg, hvernig frumvarpinu er ætlað að tryggja í fyrsta lagi að það sé ætíð fyrir hendi mikil og góð fagþekking í hverju og einu ráðuneyti, og í öðru lagi að fólki sem þar starfar sé skapað slíkt umhverfi að það geti eflt fagþekkingu sína, vegna þess að embættismennirnir verða eftir þegar pólitíkusarnir fara.

Í þessu frumvarpi er í raun eingöngu tekið á því hvernig eigi að skera á milli hins pólitíska valds og embættismannanna en í engu vikið að því hvernig við ætlum að efla sjálfa stjórnsýsluna, festa hana í frekara form, gera hana skilvirkari og gegnsærri fyrir borgarann að lesa úr. Stjórnsýslan og þeir sem starfa í stjórnsýslunni eru í þjónustu við borgara landsins. Hvort heldur fólk starfar á sveitarstjórnarstigi eða hjá ríkinu eru þeir sem vinna í stjórnsýslunni í þjónustuhlutverki við borgara þessa lands með einum eða öðrum hætti. Það er verkefni þeirra. Hvernig ætlum við að skila því sem kallað er eftir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis; formfestu í stjórnsýslunni, betri, gegnsærri og virkari stjórnsýslu? Hvernig ætlum við að ná því? Hvergi er hægt að sjá að um það sé fjallað í þessu frumvarpi.

Ég vil fagna því, frú forseti, og gerði það líka í ræðu minni við 1. umr., að í 7. gr. er sagt að í fundargerðir ríkisstjórnar skuli færðar niðurstöður og í þeim sé skýrt frá því sem fram kemur á ríkisstjórnarfundum og að hægt er að hafa til hliðar trúnaðarbók fyrir mál sem ekki eiga erindi við okkur hinn almenna borgara, því vissulega verða rædd mál á ríkisstjórnarfundum sem þannig eru vaxin. Ég fagna því að 7. gr. sé með þeim hætti.

Ég verð hins vegar að segja að mér finnst það vera, frú forseti, og kann það að þykja hart, dulítil dúsa upp í þá sem ekki gátu samþykkt nefndarálit meiri hlutans við afgreiðslu úr allsherjarnefnd hér forðum daga, að setja inn breytingartillögu um að allir fundir ríkisstjórnarinnar skuli hljóðritaðir og afrit geymt í vörslu Þjóðskjalasafns. Ekki að það sé slæmt í sjálfu sér að hljóðrita ríkisstjórnarfundi en ég velti því fyrir mér í hvaða tilgangi það eigi að vera. Er það gert í sögulegum tilgangi svo að eftir 30 ár verði hægt að hlusta á það sem ráðherrar á ríkisstjórnarfundi sögðu hver og einn, fólk sem kannski er horfið úr heimi hér, velta sér upp úr því og spjalla um það fram og til baka hvað þeir sögðu og hvað þeir hefðu átt að segja og hvað þeir sögðu ekki? En ég ætla ekki að setja mig upp á móti þessari nýju málsgrein en ég verð að viðurkenna, frú forseti, að mér finnst þetta ögn hlálegt. Ég tek undir með þeim sem hafa velt því fyrir sér hvernig ríkisstjórnarfundirnir verða í raun og veru.

Mér þykir vanta inn í frumvarpið, frú forseti, og ég sakna þess að ekki skuli hafa verið betur vandað til þeirra verka, meira um svokallaðar ráðherranefndir í 10. gr. sem og samhæfingarnefndir í 25. gr. frumvarpsins, að mig minnir. Við lærðum það í hruninu að ýmsar nefndir voru settar á laggirnar en það var hins vegar algjörlega óljóst til hvers þær voru stofnaðar, hvert var umboð þeirra, hverjir voru verkferlar, hver afurðin átti að vera, hverra upplýsinga átti að afla og hver átti að taka við upplýsingum. Ég held að þær greinar frumvarpsins sem hér eru nefndar til, 10. gr. og 25. gr., gangi báðar of stutt. Eins og rannsóknarnefnd Alþingis benti réttilega á og þingmannanefndin tók undir, þarf að skýra nákvæmlega, þegar slíkar nefndir eru settar á laggirnar, hvert sé verksvið þeirra, hverjir verkferlarnir eigi að vera, hvaða afurð eigi að koma út hjá slíkri nefnd, hver eigi að fá upplýsingarnar og hvernig eigi að meðhöndla þær upplýsingar.

Þess vegna tel ég að frumvarpið sé enn ófullburða og færi betur á því að þær samningaviðræður sem eiga sér stað í herbergjum hússins væru fólgnar í því að draga það til baka eða fresta umræðu þannig að hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin gæti tekið til skoðunar þær umsagnir og þær umræður sem hér hafa farið fram, breytt frumvarpinu enn frekar, fært til betri vegar svo um það næðist meiri sátt, lagt það fram á haustþinginu og við mundum reyna að klára það þar. Þó að hér sé ýmislegt sem menn eru að fara í rétta átt með, miðað við skýrslurnar tvær, vantar engu að síður upp á að lengra sé gengið til að skýra ýmsa þætti sem við fengum verulega ádrepu um í báðum þeim skýrslum sem gefnar hafa verið út í kjölfar hrunsins.

Ég tel að menn þurfi líka að velta aðeins fyrir sér 12., 13. og 14. gr. og ég vitna nú í nefndarálit hv. þingmanna Sigurðar Kára Kristjánssonar og Birgis Ármannssonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd. Í athugasemd þeirra við 12. gr., þar sem rætt er um að ráðherra sé heimilt að láta í té óbindandi álit, velta þeir því fyrir sér hvaða þýðingu slíkt getur haft, hvenær það eigi við, hvenær það eigi hugsanlega ekki við og af hverju þetta sé sett inn svona. Hvað er það í dag sem gerir það að verkum að ráðherra getur ekki gert það sem hér er talað um? Ráðherrar hafa heimild til að taka stjórnvaldsákvarðanir, þeir hafa heimild til að hafa sjálfstæðar skoðanir en það er verið að bæta við nýju úrræði eða leið fyrir ráðherrann til að hafa áhrif á stjórnarframkvæmd á málefnasviðum sem undir hann heyra. Mér finnst þetta umhugsunarefni og í það minnsta þess virði að það verði rætt frekar. Þarna getur verið um að ræða að stofnanir sem heyra undir ákveðna ráðherra eigi að vera sjálfstæðar en í hverju felst þá sjálfstæði þeirra ef heimildir ráðherra í 12., 13. og 14. gr. verða virkar? Mér finnst ástæða til að það verði í það minnsta útskýrt frekar hvað þetta þýðir í raun og veru. Og hvers vegna er verið að setja þessar breytingar inn?

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það áðan að mér þykir vanta í frumvarpið hvernig eigi að styrkja innviði ráðuneytanna, styrkja fagþekkingu og efla stjórnsýsluna, gera hana gegnsærri og skilvirkari. Ég kalla eftir því að sá þáttur sé skoðaður betur og þær athugasemdir sem gerðar eru í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og í skýrslu þingmannanefndarinnar, og að skoðað sé með hvaða hætti við getum tryggt frekar betri og virkari stjórnsýslu en ljóst er að var við lýði í hruninu.

Ég óttast líka að með breytingunum sem lagðar eru til, sérstaklega á 2. og 4. gr., sé fagleg ábyrgð ekki tryggð, alveg eins og í margfrægu hruni þar sem ráðherrar virtust ekki bera faglega ábyrgð á ráðuneytum sínum þegar óljóst var um ákveðin valdmörk. Þeir sátu sumir sömu fundi eins og greint hefur verið frá eða sá sem bar faglega ábyrgð á því efni sem rætt var var ekki boðaður til fundarins. Hvernig mun 4. gr., en bæði hæstv. forsætisráðherra sem og aðrir stjórnarþingmenn hafa útskýrt fyrir okkur hvernig hún er hugsuð, skýra faglega ábyrgð ráðherra, ef það eru fleiri en einn ráðherra innan sama ráðuneytis, (MÁ: Það verður ekki þannig.) hver ber þá faglega ábyrgð á þeim þætti sem að snýr?

Hér veifar hv. þm. Mörður Árnason höndum og segir að það verði ekki þannig. (MÁ: Þetta er ekki þannig.) En hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fór akkúrat yfir það að í velferðarráðuneytinu gæti t.d. verið velferðarráðherra og síðan ráðherra um málefni fatlaðra. Ber þá ráðherra um málefni fatlaðra, sem heyra undir velferðarráðuneytið í dag, alfarið ábyrgð á málefnum fatlaðra? (MÁ: Að sjálfsögðu.) Skarast það við velferðarráðherra eða skarast það svo aftur við innanríkisráðherra þar sem um er að ræða sveitarstjórnarmál? Hér kinka kolli og hrista höfuð hv. þm. Mörður Árnason og Álfheiður Ingadóttir og eru ekki sammála. (MÁ: Jú, við erum sammála.) (ÁI: Við erum sammála.) Kannski eru þau sammála en þau eru ekki sammála minni túlkun um nálgunina á þessu máli.

Það sést kannski best á þessum höfuðhneigingum, virðulegi forseti, að ýmislegt er óljóst sem hefði kannski þurft að ræða betur, en ekki það að fólk skilji hlutina á mismunandi hátt. Það hefði kannski þurft að ræða það frekar, festa betur á blað svo að ekki færi á milli mála um hvað við vildum ræða. Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki sisvona að hafna breytingum en ég vil að fólk ræði það frekar hvernig við viljum gera þetta. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Eigi Alþingi að bera ábyrgð á ráðherrum þá á Alþingi líka, a.m.k. meiri hlutinn að baki ríkisstjórnar eða minni hluti með hlutleysi einhverra, að samþykkja að farið sé í þessa vegferð.

Virðulegi forseti. Margir þeir sem hér hafa talað hafa sagt að frumvarpið byggist á þeim tveimur skýrslum sem ég hef nefnt. Ég tel að svo sé að hluta til þó svo að ýmislegt hefði betur mátt gera. En það kom skýrt og skilmerkilega fram í báðum skýrslunum að styrkja bæri Alþingi. [Kliður í þingsal.] Í margfrægri þingsályktunartillögu sem samþykkt var hér stendur m.a., með leyfi forseta: — Það er ágætt að fleiri en einn fundur er í salnum. Það er þá merki um að hér sé líf.

Þar stendur, virðulegur forseti:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.“

Það er alveg ljóst að það er ekki gert í lögum um Stjórnarráð Íslands. Hins vegar langaði mig engu að síður að nefna að með þessu frumvarpi til laga um Stjórnarráðið segja þeir sem mæla því bót að verið sé að styrkja stjórnsýsluna og setja eldvegg á milli pólitískt ráðinna einstaklinga og aðstoðarmanna og síðan embættismanna og ég fagna því.

Þegar frumvarpið var lagt fram gat fjöldi ráðherra verið tíu og ráðherrar, með breytingartillögunum, ráðið sér tvo aðstoðarmenn. Síðan átti að vera hægt að ráða þrjá þar fyrir utan. Nú hefur meiri hluti allsherjarnefndar ákveðið að þessir tíu falli út en eftir stendur engu að síður að hver ráðherra, óháð því hversu margir ráðherrarnir verða, geti ráðið sér tvo aðstoðarmenn. Annað tveggja íhuga menn að fækka ráðherrum eða fjölga þeim. Þeir eru í það minnsta ekki tilbúnir að setja inn töluna. Ég segi bara: Þá gera þeir það ekki. En samhliða því veit enginn um hvað við erum að tala varðandi aðstoðarmenn.

Af hverju nefni ég þetta? Jú, vegna þess að rætt var um að styrkja þingið, að verja og styrkja sjálfstæði þingsins og grundvallarhlutverk og styrkja löggjafarvaldið gegn framkvæmdarvaldinu og virða þrískiptingu valdsins. En þegar skórinn kreppir er fyrst skorið niður við þingið og það var gert einn, tveir og þrír og enginn bliknaði þegar það var gert, þegar hlutverk aðstoðarmanna þingmanna var sett til hliðar. Á sama tíma leggja menn til að styrkja framkvæmdarvaldið eins og hér er gert. Það kemur líka við fjármuni úr ríkissjóði á nákvæmlega sama hátt og aðstoðarmenn þingmanna. Ef nauðsynlegt er að styrkja pólitíska stefnumótun og styrkja stöðu ráðherra með lögum um Stjórnarráðið þarf þá ekki samhliða að líta til þess að styrkja Alþingi Íslendinga með einum eða öðrum hætti, hvort heldur það er með aðstoðarmönnum þingmanna, lagaskrifstofu, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur nefnt eða hvernig svo sem við ákveðum að gera það?

Ég tel að Alþingi Íslendinga þurfi að velta þessu fyrir sér. Ég velti því líka fyrir mér: Ef það er svo mikilsvert að styrkja framkvæmdarvaldið á þessum tímapunkti þá kostar það 100 milljónir. Kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins hljóðar upp á 100 milljónir til viðbótar til Stjórnarráðsins ár hvert miðað við tíu ráðherra, tvo aðstoðarmenn fyrir hvern og þrjá til viðbótar. Verði þeir fleiri eykst kostnaðurinn að sjálfsögðu. Það er eftirtektarvert, frú forseti, að kostnaðarmat fjárlagaskrifstofunnar hefur ekki verið endurreiknað enda er það kannski ekki hægt vegna þess að 2. gr. er þannig að vart má sjá hvernig á að skipa málum ráðherra í náinni framtíð.

Frú forseti. Hér hefur verið drepið á eitt sem mér finnst ástæða til að velta aðeins fyrir sér. Í 18. gr. er rætt um ráðningar ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra, aðstoðarmanna og annað í þeim dúr. Síðari málsliður 1. mgr. 18. gr. er þannig, með leyfi forseta:

„Ráðuneytisstjóri er í fyrirsvari við ráðningu annarra starfsmanna ráðuneytis.“

Frá meiri hluta allsherjarnefndar kemur breytingartillaga um að þessi málsliður falli brott og í staðinn komi:

„Aðrir starfsmenn eru ráðnir.“

Þá veltir maður fyrir sér: Ráðnir af hverjum, hver ber ábyrgð á ráðningu þeirra? Þetta eru væntanlega embættismennirnir sem má ætla að séu áfram í ráðuneytinu þegar pólitískir ráðherrar og þeirra teymi fara brott. Hverra er að ráða þessa aðila þegar búið er að taka út að ráðuneytisstjórinn sé í fyrirsvari við ráðningu? Hverra er að ráða þessa einstaklinga? (Gripið fram í.) Vart getur það verið ráðherrann því að hann er pólitískur. (Gripið fram í.) Hv. þm. Mörður Árnason, ekki gera svona lítið úr sjálfum þér með því að kalla þetta fram í.

Menn þurfa í það minnsta að skýra ástæðuna fyrir þessari breytingu og mér finnst allt í lagi að við vitum hverjir eigi að ráða aðra starfsmenn ráðuneytanna þegar við viljum samhliða efla þar fagþekkingu, styrkja stjórnsýslu, efla gegnsæi o.s.frv. Ég skil ekki þessa breytingu og vildi gjarnan fá skýringu frá einhverjum þeirra sem sátu í allsherjarnefnd á því af hverju þetta er sett fram svona.

Ég ætla hins vegar, virðulegur forseti, að fagna — eða það er kannski rétt að taka fyrst fram það sem maður er ekki sáttur við áður en maður fagnar. Nei, frú forseti, ég ætla að fagna. Ég ætla að fagna því að á eftir 25. gr. kemur nýr kafli sem heitir Málstefna. Ég fagna því að við gerð þessa frumvarps sé tekið mið af því frumvarpi sem samþykkt var á vorþingi, að íslenskan sé þjóðtungan og að táknmálið sé mál þeirra sem á þurfa að halda. Ég fagna því að settar skuli reglur um notkun íslensks táknmáls og íslensks punktaleturs í gögnum og starfsemi Stjórnarráðsins, sem og þessari málstefnu. Ég geri ráð fyrir og það er nú í lagi að segja það hér, frú forseti, að hv. þm. Mörður Árnason eigi hér einhvern hlut að máli og er það vel.

Ég velti því hins vegar fyrir mér af hverju í veröldinni 2. og 3. mgr. 27. gr. laganna séu felldar brott. Við erum á miðju kjörtímabili. Af hverju ákveða menn á miðju kjörtímabili að hverfa frá því sem stendur upphaflega í frumvarpinu um að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 22. gr. sé ráðherrum óheimilt, o.s.frv., þar til að afstöðnum næstu alþingiskosningum, að ráða til sín ráðgjafa. Af hverju mátti það ekki standa? Af hverju þarf að gefa ráðherrum ríkisstjórnarinnar tækifæri nú á að ráða til sín fleiri aðstoðarmenn ef á þarf að halda? Af hverju mátti ekki standa að þetta næði frá og með næstu kosningum? Erum við virkilega svo vel sett fjárhagslega að þetta skipti okkur ekki máli? Við þessu hafa heldur engin svör fengist og ég er ekki sú fyrsta sem spyr af hverju.

Frú forseti. Ég hef nú í ræðu minni rakið margar breytingar á frumvarpinu og ég tel að ýmsar þeirra breytinga sem hér eru lagðar til séu af hinu góða. Ég tel að margt í frumvarpinu megi rekja til afstöðunnar sem fram kom í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar. Ég hef hins vegar bent á að sumar greinar mættu betur fara og ég gerði það líka í fyrri umræðu. Til að mynda mætti það vera skýrara, þegar ráðherranefndir eru settar á laggirnar sem og svokallaðar samhæfingarnefndir, til hvers er verið að setja þær á laggirnar, hverjir verkferlarnir eigi að vera, hver afurðin eigi að vera, hvaða upplýsinga skuli aflað, hver á að fá upplýsingarnar og hvernig á að fara með þær. Ýmis slík grunnatriði sem skipta miklu máli þegar um er að ræða stjórnsýslu og rekjanleika frá orðum til athafna er ekki að finna í frumvarpinu.

Ýmislegt hefur verið tekið til skoðunar af því sem fram kom í skýrslunum tveimur sem hafa verið margoft nefndar hér. Það er gott. Ég tel hins vegar að á meðan við getum verið hér í þessu húsi á þessari stundu að ræða hugsanlegar málamiðlanir um ákveðnar greinar frumvarpsins til að halda áfram með þingstörfin og ljúka málinu, þá sé það ekki nægjanlega rætt. Það væri skynsamlegra að einstakir aðilar ræddu það ekki í bakherbergjum eða hliðarherbergjum heldur fengi nefndin sem fjalla á um Stjórnarráð Íslands málið til meðhöndlunar eftir að hæstv. forseti hefur skoðað og farið yfir og lagt til þær breytingar sem hæstv. forsætisráðherra er hugsanlega tilbúin að gera hér og nú, og koma með þær inn í nýtt frumvarp sem um ríkti betri sátt, væri ívið vandaðra og við gætum afgreitt hér, og fleiri en ein ríkisstjórn gæti nýtt sér.