139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:20]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að heyra viðhorf þingmannsins til þeirrar 180° breytingar sem orðið hefur á stefnu Framsóknarflokksins í málinu. Skýrsla stjórnarráðsnefndar flokksins lagði fram þær tillögur um að ríkisstjórnin ætti sjálf að skipta með sér verkum en ekki löggjafinn, að unnt væri að breyta samsetningu og fjölda og heitum ráðuneyta og að samsetning, fjöldi og heiti ráðuneyta væri ekki bundinn í lögum.

Tveir þingmenn Framsóknarflokksins eru sammála þessari túlkun stjórnarráðsnefndar flokksins sem kemur úr grasrótinni og er samþykkt í stofnunum flokksins, en stór hluti þingflokksins víkur algerlega af stefnunni.

Er hv. þingmaður ekki sammála þeirri skoðun minni að þetta sýni það og opinberi í raun og veru stefnuleysi Framsóknarflokksins í málinu þegar þingflokkurinn ákveður að svíkja grasrótina með jafnglögglegum hætti og hér hefur átt sér stað?