139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:02]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ákveðna samúð með þingmanninum hvað varðar finnsk lög. Þetta er auðvitað allt á finnsku, þannig að við erum væntanlega jafnilla settir í því vandamáli.

Hvað varðar reynslu Dana og annarra, og einmitt öðruvísi menningu, þá er náttúrlega löng hefð fyrir t.d. minnihlutastjórnum í norrænum stjórnmálum. Þar liggur auðvitað að baki annar stjórnmálakúltúr, m.a. varðandi samskipti meiri hluta og minni hluta.

En það sem ég er einmitt að segja um finnsku leiðina er að við þurfum ekki að gera neinar stórtækar breytingar á lögunum. Við þurfum að breyta því hvernig við vinnum málin, hvernig við hugsum þetta í staðinn fyrir að gera þetta eins og gert hefur verið og við höfum síðan verið að vandræðast með, eins og við höfum séð í umræðu um stöðu einstakra ráðherra. Það ætti að fara þessa leið strax í upphafi, sem ég nefndi, áður en menn eru búnir að ganga frá allri skipan, áður en ráðherrarnir eru skipaðir til sinna verka. Auðvitað þarf síðan að ganga frá öllu saman þegar þing kemur saman, en það eru leiðir til að nálgast þetta og útfæra þannig að góð sátt náist um.