138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:56]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur alveg sparað sér það að vera með einhverjar yfirlætislegar yfirlýsingar um það að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sé einhver leiðtogi lífs míns. Hún er ekkert leiðtogi míns lífs, síður en svo. En þannig vill til að hæstv. forsætisráðherra hélt hér ræðu í gær sem ég var efnislega sammála. Ég tek auðvitað undir þau sjónarmið sem ég er sammála, burt séð frá því hvort þau koma frá hv. þm. Þór Saari, fulltrúum Framsóknarflokksins eða forsætisráðherra Íslands. Ég var einfaldlega sammála hæstv. forsætisráðherra í þessu efni og tel að hún hafi flutt mjög gild rök fyrir því að réttarstaða sakborninga í þessu máli er mun verri og skertari en var í Tamílamálinu.

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann: Hvað þarf að koma fram til að hv. þingmaður hafi einhverjar efasemdir um að hún sé að gera rétt í þessu máli? Komið hafa fram efasemdir um málsmeðferð málsins frá formanni Lögmannafélags Íslands, formanni Lögfræðingafélags Íslands, sérfræðingi í refsirétti við Háskólann í Reykjavík, tveimur ef ekki þremur sérfræðingum sem þingmaðurinn leitaði til við meðferð málsins en það virðist ekkert bíta á hv. þingmann, henni sést ekki fyrir í ákæruvildinni gagnvart þessum fyrrverandi ráðherrum.

Ég spyr: Hvað þarf eiginlega að koma til til að hv. þingmaður a.m.k. hugsi sig um? Mér sýnist að það sé vonlaust (Forseti hringir.) að koma vitinu fyrir hv. þingmann.