139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi umræða sé að verða nokkuð sérstök. Nú koma hv. þingmenn hingað í fullri alvöru og tala um það eins og það sé einhver sérstakur réttur þeirra að fá að greiða atkvæði um mál þegar þeir vilja. Hvaða tal er þetta? Það sem er í gangi er það að ríkisstjórnarmeirihlutinn forgangsraðar málum. Ég hvet ykkur til að skoða þau 46 atriði sem eru á dagskrá. Ég fann eitt sem hugsanlega getur nýst heimilunum, mál nr. 22. (Gripið fram í.) Já, alltaf er hæstv. utanríkisráðherra gamansamur og það er vel. Í erfiðri stöðu eru menn gamansamir og það er gott. En síðan er það þannig, virðulegur forseti, að við erum með það stjórnmálaafl, sem talar hvað mest fyrir samráði, samvinnu, umræðustjórnmálum, sem ætlar að keyra í gegn með góðu eða illu án nokkurrar samvinnu mál sem alla jafnan hafa verið unnin í góðri samvinnu stjórnmálaaflanna í þinginu gegnum söguna. Þá er ég að vísa í frumvarp um Stjórnarráðið.