139. löggjafarþing — 164. fundur,  16. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ræðuna. Auðvitað má finna í þessu frumvarpi nokkra góða fleti, þótt það nú væri líka. Hér liggur frammi frumvarp í bókarformi og skárra væri það ef ekki væri eitthvað gott í því en því miður fellur það algjörlega í skuggann fyrir þeim göllum sem eru í frumvarpinu. Eins og ég hef farið hér yfir er um forsætisráðherravæðingu að ræða.

Eins og þingmaðurinn fór yfir er mikið brigslað um að stjórnarandstaðan á þingi sé að tefja þetta mál. Svo er alls ekki. Þingmaðurinn talaði um minni hlutann á þingi. Við skulum átta okkur á því að nú eru gengnir til liðs við minni hlutann, stjórnarandstöðuna, tveir hæstv. ráðherrar, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason og hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson. Það eru stórtíðindi, verð ég að segja. Það er ekki bara stjórnarandstaðan sem heldur hér uppi málefnalegri umræðu. Meira að segja lét hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þau ummæli falla að honum þætti felast í frumvarpinu óþolandi valdníðsla. Þetta eru stór orð úr munni ráðherra í ríkisstjórn, en það hefur komið áður fram í umræðum að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra studdi ekki að taka þetta frumvarp út úr ríkisstjórninni og hæstv. innanríkisráðherra lýsti yfir miklum efasemdum með það. Þeir hafa nú báðir staðfest að þeir komi ekki til með að greiða þessu frumvarpi atkvæði sitt breytist það ekki í meðförum þingsins.

Þá langar mig líka til að benda á að um sjöleytið í kvöld tóku Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sig saman og skiluðu inn til ríkisstjórnarinnar tilboði að lausn á þeim vanda sem í frumvarpinu felst við litlar undirtektir. Því tilboði var hafnað af ríkisstjórnarflokkunum.

Mig langar til að spyrja þingmanninn: Hvernig telur (Forseti hringir.) hann að atkvæðagreiðslan fari í þinginu á morgun (Forseti hringir.) þar sem tveir hæstv. ráðherrar styðja frumvarpið ekki?