139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (frh.):

Frú forseti. Því miður þurfti ég að gera hlé á ræðu minni fyrir hádegi vegna þess að gert var hádegishlé og fundir haldnir í nefndum þannig að þetta er orðið nokkuð sundurslitið, frú forseti, en ég rifja upp að ég óskaði eftir því í fyrri hluta ræðu minnar að hæstv. forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra yrðu við þessa umræðu. Þá vil ég að hæstv. ráðherrar séu í salnum vegna þess að ég ætla að beina fyrirspurnum til hæstv. ráðherra og einnig til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Er mögulegt að frú forseti geri ráðstafanir til að hæstv. ráðherrum og þingmanni verði gert viðvart um að nærveru þeirra sé óskað?

(Forseti (UBK): Hæstv. forseti er að láta kanna það þannig að hv. þingmaður heldur áfram með ræðu sína. Forseti mun koma skilaboðum til þingmannsins um leið og upplýsingar berast.)

Það gengur mjög hratt á ræðutíma minn og því spyr ég hvort það sé mögulegt að við gerum tíu mínútna hlé þangað til hæstv. ráðherrar og hv. þingmaður koma til umræðunnar. Það er mjög erfitt að spyrja þessa aðila spurninga ef þeir eru ekki við og geta þá ekki beðið um orðið í formi andsvars eða ræðu. Eins og frú forseti hefur tekið eftir höfum við átt í dálítið mikilli einræðu hér um valdaframsal frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins verði þetta frumvarp að lögum. Hæstv. ráðherrar hafa ekki virt okkur viðlits með því að svara þeim spurningum sem við höfum varpað fram þannig að ég legg áherslu á það við frú forseta að hún tryggi það að spurningum mínum verði svarað og að þessir aðilar verði við þá umræðu sem hér fer fram.

(Forseti (UBK): Forseti hvetur hv. þingmann til að halda áfram ræðu sinni. Það er verið að athuga með viðveru hæstv. ráðherra og eins og hefð er fyrir gefum við smátíma í það. Forseti hvetur hv. ræðumann til að halda áfram ræðu sinni.)

Af því að frú forseti vitnar í hefðir hefur það margsinnis gerst á undangengnum árum að forseti hefur frestað þingfundi um tíu eða fimmtán mínútur til að þeir aðilar sem viðkomandi ræðumenn vilja beina fyrirspurnum til í hvert skipti geti verið við umræðuna. Nú hefur það komið margsinnis fram, ekki bara hjá mér heldur öðrum hv. þingmönnum, að það er nauðsynlegt að þeir sem bera ábyrgð á þessu máli komi til þessarar umræðu.

Að þessu sögðu ætla ég að halda áfram með ræðu mína. Ég minni fyrst á þá þingmannanefnd sem fjallaði um rannsóknarskýrslu Alþingis. Ég hef áður vitnað til niðurstaðna hennar. Ef þetta frumvarp verður samþykkt er verið að ganga þvert gegn því sem allir alþingismenn á Alþingi Íslendinga samþykktu fyrir nokkrum mánuðum, en það var að auka veg, virðingu og völd þingsins og draga þar með úr valdi framkvæmdarvaldsins. Hér leggja hv. stjórnarþingmenn til að dregið verði úr áhrifum og völdum þingsins í þessum efnum og að völd eins ráðherra, hæstv. forsætisráðherra, verði nær algjör þegar kemur að skipan Stjórnarráðsins. Það er verið að færa verkefni frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins þvert á það sem við höfum talað fyrir á undangengnum mánuðum og allir þingmenn voru sammála um fyrir skemmstu. Nú kemur í ljós hvernig foringjaræðið, oddvitaræðið, virkar í reynd sinni. Það er enn hert á og hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon gefa í ef eitthvað er. Nú skulu fótgönguliðarnir í Samfylkingunni og Vinstri grænum ganga í takt eins og leiðtogarnir segja, eins og gert var í Icesave-málinu frá fyrsta degi eftir að það var lagt fram. Þá kom hæstv. fjármálaráðherra hingað og dásamaði Svavarssamninginn og margir þingmenn úr röðum Samfylkingar og Vinstri grænna komu hingað og studdu sinn foringja án þess að hafa lesið þann samning sem þá lá fyrir. Þar kom foringjaræðið í ljós og nú á að halda áfram og það á auka enn frekar á foringjaræðið í þessari ríkisstjórn. Á hvaða vegferð erum við?

Svo erum við sem viljum standa vörð um rétt og áhrif Alþingis sökuð um að vera í málþófi. Ég hafna því algjörlega, hér í fyrstu ræðu minni um þetta mál, að ég sé með eitthvert málþóf þegar verið er að gera grundvallarbreytingar sem þessar, enda hefur komið í ljós hjá fjölmörgum aðilum sem sátu í þingmannanefndinni sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar að verið er að ganga þvert á það sem þar var lagt til. Nú ætla ég að vitna til niðurstöðu skýrslu þingmannanefndarinnar um stjórnsýsluna. Á bls. 11 í skýrslunni segir, með leyfi frú forseta:

„Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt. Ljóst er að ráðherraábyrgðarkeðjan slitnaði eða aflagaðist í aðdraganda hrunsins og ráðherrar gengu á verksvið hver annars, t.d. þegar fagráðherrar voru ekki boðaðir á fundi um málefni sem heyrðu undir þeirra ábyrgðarsvið. Ábyrgð og eftirliti fagráðherra með sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneyti þeirra heyrðu virtist verulega ábótavant.“

Ég tek fram eins og ég gerði í fyrri hluta ræðu minnar að margt í þessu frumvarpi horfir til framfara og er verið að taka á samkvæmt því sem þarna er verið að ræða. En eins og bent er á í þessari skýrslu þegar rætt er um oddvitaræðið og verklag þess er verið að auka á þau vinnubrögð, efla valdheimildir forsætisráðherra — og á kostnað hvers? Á kostnað Alþingis Íslendinga. Ég held að hv. stjórnarliða skorti eitthvert skammtímaminni vegna þess að það hlýtur að flokkast undir skammtímaminni að þurfa að rifja upp hvað samþykkt var hér fyrir nokkrum mánuðum um að breyta vinnulaginu á Alþingi, að Alþingi fái hið raunverulega vald sem það hefur samkvæmt stjórnarskránni, en framselji það ekki til einhverra oddvita ríkisstjórnarflokkanna.

Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, eru komnir í salinn. Af því að hæstv. fjármálaráðherra er kominn til umræðunnar spyr ég hann hvað hafi breyst frá árinu 2007 þegar hann sagði í umræðum um breytingar á Stjórnarráðinu að í svoleiðis grundvallarmálum væri mikilvægt að slík mál væru afgreidd í samvinnu og í sátt. Því er ekki til að dreifa í þessu máli. Nú eru liðin fjögur ár frá því að hæstv. ráðherra lét þessi orð falla, hann var reyndar í stjórnarandstöðu þá. Hefur hugsunarháttur hans þegar kemur að grundvallarmálum sem þessu breyst á þessum fjórum árum þannig að nú vilji hann taka málið í gegn á þessum haustfundi Alþingis í bullandi ágreiningi þar sem útgangspunkturinn er sá að minnka völd Alþingis Íslendinga þegar kemur að því að hafa áhrif á það hvernig Stjórnarráð Íslands lítur út, minnka völd Alþingis Íslendinga og færa það til hæstv. forsætisráðherra?

Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að rökstyðja stefnubreytingu sína í þessu máli, að hann skuli beita sér fyrir því að minnka völd og áhrif þingmanna og auka völd framkvæmdarvaldsins. Öðruvísi mér áður brá eða ég veit ekki hvernig maður á að útskýra þessa stefnubreytingu hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi vill hann veikja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu og í öðru lagi hverfur hann frá því sem hann sagði árið 2007 um að mál sem þessi, grundvallarmál, ætti að leysa í góðu samkomulagi, þetta ætti að vera samkomulagsmál en ekki ágreiningsmál. Nú er hæstv. ráðherra að reyna að troða þessu máli á septemberstubbi í gegnum Alþingi Íslendinga.

Mig langar að ræða aðeins um oddvitaræðið og vitna til sjálfrar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í henni segir meðal annars um það sem hér er nefnt oddvitaræði, með leyfi frú forseta:

„Eitt einkenni hennar [þ.e. íslenskrar stjórnmálamenningar] er að foringjar eða oddvitar flokkanna leika lykilhlutverk en hinn almenni þingmaður er atkvæðalítill. Um það segir íslenskur stjórnmálamaður með langan feril úr pólitíkinni: „Auðvitað er það svo að flokksræðið nánast í öllum stjórnmálaflokkunum hefur þróast í ofurvald foringjans og klíkunnar. Þess vegna er lýðræðið okkar svona brothætt og veikt og ég velti því fyrir mér hvort í rauninni þurfi ekki að stíga mörg sterk skref vegna þessarar reynslu til að tryggja sterkari stjórnmálamenn og minna foringjaræði.“ Stjórnmálamenn draga hins vegar ávallt dám af þeirri stjórnmálamenningu sem þeir lifa og hrærast í. Séu stjórnsiðirnir slæmir og stjórnkerfið veikt geta sterkir stjórnmálamenn verið varasamir. Í foringjaræði verður hlutur lögþingsins einkum að afgreiða mál sem undirbúin hafa verið í litlum hópi lykilmanna. Þannig gegnir þingið formlegu löggjafarhlutverki sínu, en bæði umræðuhlutverkið og eftirlitshlutverkið eru vanrækt.“

Það liggur fyrir að við erum að ganga lengra í þessari öfugþróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, og ekki bara árum heldur áratugum. Nú á að herða enn frekar tökin hjá foringjum ríkisstjórnarinnar þannig að þeir geti látið Alþingi lönd og leið þegar kemur að mikilvægum ákvarðanatökum. Stjórnarflokkarnir eru gjörsamlega komnir í þversögn við það sem þeir skrifuðu undir þegar rannsóknarnefnd Alþingis skilaði af sér umfjöllun sinni með skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Af því að hæstv. ráðherrar eru komnir hingað ætla ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, nokkurs. Hv. þm. Atli Gíslason talaði hér klukkan eitt í nótt. Hann var formaður umræddrar nefndar sem ég hef oft vitnað til og er þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hann hrakti grundvöll frumvarpsins sem við ræðum hér, sem á að vera skýrsla þingmannanefndarinnar, með orðum sínum í nótt. Við erum ekki að tala um einhvern léttvigtarmann í þessu máli, við erum að tala um þingmann sem stýrði þessari þingmannanefnd. Hann sagði í nótt, með leyfi frú forseta:

„Ég nefndi fyrr í ræðu minni að með frumvarpinu sé löggjafarvald flutt til framkvæmdarvaldsins, þ.e. forsætisráðherra. Það hefur verið ítarlega rökstutt, bæði varðandi heiti ráðuneyta og verkefnaflutning. Forsætisráðherra fær meiri völd, oddvitaræðið er styrkt. Málum verður ekki skipað með lögum með sama hætti og nú er. Að mínu mati er það alls ekki í anda skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstaðna og ályktana þingmannanefndarinnar. Þetta er að mínu mati öfug þróun og gengur gegn niðurstöðum þessara nefnda um formfestu og rýrir enn hlut löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Það er á sama tíma og allir hv. þingmenn sem ég hef heyrt tala á þinginu kalla eftir auknu sjálfstæði þingsins, nákvæmlega á sama tíma, að því sé ekki stýrt af framkvæmdarvaldinu eins og niðurröðun dagskrár í dag og fleirsinnis bendir sterklega til.“

Þetta liggur alveg fyrir. Grundvöllur frumvarpsins sem hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað sagt í þinginu og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu sjálfu á að vera skýrsla þingmannanefndar Alþingis um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Formaður nefndarinnar kom upp í nótt og lýsti því yfir að þetta frumvarp gengi þvert gegn þeim anda sem ríkti í samstarfi þingmannanna sem tóku þátt í því starfi og allir þingmenn samþykktu 63:0. Nokkrum mánuðum síðar ætla landgönguliðar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna að fylgja leiðtogum sínum í algjörri blindni eins og í Icesave-málinu, á öllum stigum þess máls, vegna þess að þessir hæstv. ráðherrar eru foringjarnir. Nú fyrst skulu foringjastjórnmálin fyrir alvöru verða iðkuð á Alþingi. — [Bjölluhljóð í síma.] Bjöllur hringja í þingsal og það er ágætistilbreyting að það sé ekki bjalla frú forseta heldur sími hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þetta er skemmtileg upplifun því að oft verður manni dálítið hverft við þegar hæstv. forseti ber duglega í bjölluna.

Ég held að ég hafi óskað dálítið oft eftir því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kæmi til umræðunnar. Hann hefur því miður ekki séð sér fært að vera í salnum en ég er þess fullviss að hann hlustar á ræðu mína eins og hann hefur væntanlega hlustað á allar ræður sem hér hafa verið fluttar. (Gripið fram í.) Ég ætla að vitna í orð hans þegar verið var að breyta lögum og sameina sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið. Hæstv. fjármálaráðherra man væntanlega þegar það var gert. Hann var ekki svo hress með þá gjörð en nú ætla ég að vitna í hv. þm. Árna Þór Sigurðsson sem fyrir stuttu sagði þegar verið var að breyta Stjórnarráðinu þá og sameina þessi tvö atvinnuvegaráðuneyti. Með leyfi frú forseta sagði Árni Þór Sigurðsson árið 2007:

„Ég ætla að lokum, frú forseti, að segja það að mér finnst ófullnægjandi að allsherjarnefndin ein fjalli um þetta mál. Hér er um stórt mál að ræða sem snertir margar fagnefndir í þinginu. Mér finnst þess vegna nauðsynlegt að senda það jafnframt til skoðunar og umsagnar í einstökum fagnefndum. Ég mun leggja það formlega til við afgreiðslu málsins, þegar því verður vísað til nefndar, að það fari jafnframt til viðkomandi fagnefnda.“

Þessi sami hv. þingmaður talaði svo fjálglega á sínum tíma um hversu mikilvægt það væri að Alþingi Íslendinga færi yfirvegað yfir þetta mál og ég stóð í þeirri trú að þeir hæstv. fjármálaráðherra ætluðu sér að standa vörð um valdheimildir Alþingis, að við veiktum ekki Alþingi á kostnað framkvæmdarvaldsins, en nú sýnist mér að hæstv. ráðherra og þessi hv. þingmaður hafi gjörsamlega skipt um skoðun í málinu. Nú á að veita hæstv. forsætisráðherra alræðisvald þegar kemur að þessum hlutum. Alþingi á ekki að koma þetta við. Við fáum bara alvarlegar ákúrur frá þingmönnum stjórnarmeirihlutans í þessari umræðu um að við stöndum í málþófi þegar við stöndum vörð um Alþingi Íslendinga og að framkvæmdarvaldið taki ekki enn frekari heimildir eða að Alþingi afsali sér þeim völdum sem það hefur þó nú.

Ég inni hæstv. forsætisráðherra aftur eftir því orðbragði sem ég spurði um í fyrri ræðu minni og nefndi fjölmörg dæmi þess þegar stjórnarliðar hafa komið upp og ekki bara sakað okkur um að stunda málþóf heldur um að vera greindarskertir, alvarlega veikir og þar fram eftir götunum, kallað forseta lýðveldisins ræfil (Gripið fram í.) og suma þingmenn talíbana. Það var gert síðast í morgun. Þykir hæstv. forsætisráðherra þetta til eftirbreytni? Til viðbótar öllum slíkum gífuryrðum stjórnarliðanna í þessari umræðu kemur hingað hver silkihúfan á fætur annarri og sakar okkur um málþóf þegar við stöndum vörð um þá vinnu sem þingmannanefndin samþykkti samhljóða um skýrslu rannsóknarnefndarinnar fyrir örfáum mánuðum. Ég sé að hæstv. forsætisráðherra er skemmt til hliðar í þingsalnum. (Forsrh.: Ekki …) Henni er skemmt. (Gripið fram í.) Henni er skemmt af því að hún hefur alla sína í bandi, foringjaræðið skal virka eins og í Icesave. Af því að hæstv. forsætisráðherra segir þetta þá er það rétt. Af því að hæstv. fjármálaráðherra segir þetta þá er það rétt. Ég er kjörinn hingað á þing, mætti halda að sumir hugsuðu, til að fylgja eftir því sem þessir aðilar mæla fyrir um. (MÁ: … Jónsson.)

Það varð hér efnahagshrun (MÁ: Árið 2003.) haustið 2008, hv. þm. Mörður Árnason. Þetta hefur verið frasi Samfylkingarinnar. Það var farið í mjög ítarlega vinnu um hvað við gætum lært af því hruni sem þá varð. Skýrsla þingmannanefndarinnar er þar á meðal. Hv. stjórnarliðar leggja til að þingræðið á Íslandi verði veikt. Það er verið að efla framkvæmdarvaldið, það er verið að auka völd og heimildir hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur gagnvart Alþingi Íslendinga. Er þetta nýja Ísland? Er þetta það sem við viljum stefna að? Er þetta lærdómurinn sem við máttum draga af hruninu og þeim vinnubrögðum sem voru ástunduð í aðdraganda þess þar sem foringja- og oddvitaræðið var allsráðandi? Ég segi nei við þessu og ég á reyndar eftir að fara betur yfir rökstuðning minn við það vegna þess að mér finnst þessi einstaki hluti frumvarpsins svo alvarlegur, það að grundvöllurinn sé (Forseti hringir.) tilvísun í skýrslu þingmannanefndarinnar (Forseti hringir.) en farið í þveröfuga átt við það sem þar var ákveðið.

Ég bið frú forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.