145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

almennar íbúðir.

883. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd velferðarnefndar fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir, það er frumvarp sem varðar stöðu stofnframlaga. Ég geri það í fjarveru formanns nefndarinnar.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er það lagt fram í samræmi við ákvæði IV til bráðabirgða með lögum nr. 52/2016, um almennar íbúðir, og er lagt til að 4. mgr. 15. gr. laganna verði felld brott en í hennar stað komi tvær nýjar greinar sem kveða á um stöðu stofnframlaga annars vegar hjá sveitarfélögum og hins vegar hjá sjálfseignarstofnunum sem stunda atvinnurekstur. Breytingarnar miða að því að sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri og félög sem eru í eigu sveitarfélaga og falla undir lögin geti notið sama hagræðis og mælt er fyrir um varðandi stofnframlög sem veitt eru til húsnæðissjálfseignarstofnana, þ.e. skilyrt stofnfé/eignarhlutur í íbúðum.

Ákvæði 4. mgr. 15. gr. gildandi laga voru lögfest að tillögu velferðarnefndar sem lagði til að ákvæðinu yrði bætt við lögin milli 2. og 3. umr. um frumvarp sem varð að lögum um almennar íbúðir hér fyrr. Í nefndaráliti segir að Alþýðusamband Íslands, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga, í samráði við velferðarráðuneyti, hafi í sameiningu lagt fyrir nefndina tillögu að lagagrein sem feli í sér að húsnæðissjálfseignarstofnanir bókfæri stofnframlög, sem veitt væru með skilyrði um endurgreiðslu, sem svonefnt skilyrt stofnfé. Þegar til endurgreiðslu kæmi yrði féð innleyst með útgáfu skuldabréfs. Með því móti mundu framlögin teljast til eigin fjár hjá húsnæðissjálfseignarstofnunum, en jafnframt gætu sveitarfélög fært þau til eignar.

Um 4. mgr. 15. gr. segir í nefndarálitinu að þar sé sveitarfélögum og lögaðilum heimilað að færa stofnframlög ríkis og sveitarfélaga með sambærilegum hætti samkvæmt nánari útfærslu í reglugerð. Segir að hugsanlega þurfi að breyta öðrum lögum til að markmið málsgreinarinnar náist, en að ekki sé ljóst hvaða breytingar þurfi að gera. Nefndin lagði því til að bráðabirgðaákvæði yrði bætt við lögin þar sem ráðherra væri falið að láta undirbúa tillögur að lagabreytingum ef þeirra gerðist þörf.

Eftir samþykkt laganna kom í ljós að ekki væri mögulegt að útfæra ákvæði 4. mgr. 15. gr. nánar í reglugerð heldur væri nauðsynlegt að gera breytingar á lögum til að ná markmiði ákvæðisins. Frumvarpið er því lagt fram í því skyni að gera nauðsynlegar breytingar á ákvæðum laga um almennar íbúðir til að sveitarfélögum og lögaðilum alfarið í eigu sveitarfélaga, lögaðilum sem voru starfandi við gildistöku laganna og uppfylltu skilyrði til að fá lán frá Íbúðalánasjóði, samkvæmt þágildandi lögum um húsnæðismál, og aðilum sem fengið hafa sérstakt leyfi ráðherra til að fá stofnframlög sé heimilt að færa stofnframlög ríkis og sveitarfélaga sem stofnfé meðal eiginfjárliða, sem skilyrt stofnfé eða sem eignarhlut í fasteign.

Málið var unnið í sumar í ráðuneytinu og leitað leiða til að mæla fyrir um að hlutafélög og einkahlutafélög gætu notið sambærilegs hagræðis. Niðurstaðan varð að ekki væri hægt að mæla fyrir um sambærilegar breytingar hjá hlutafélögum og einkahlutafélögum og gilda um sjálfseignarstofnanir. Mögulegt er að mæla fyrir um að þeir sem veita stofnframlög eignist eignarhluti í íbúðunum, en ekki er vilji fyrir því hjá ríkinu.

Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að mæla fyrir um að stofnframlög myndi stofnfé í hlutafélögum og einkahlutafélögum er sú að þegar stofnframlag er veitt er búið að stofna félagið og greiða fyrir hluti þess. Til að mögulegt væri að færa stofnframlag sem stofnfé þyrfti að auka hlutafé félagsins, t.d. þannig að gefinn væri út sérstakur hlutabréfaflokkur sem væri þá með öðrum réttindum en hefðbundið hlutafé.

Ekki verður einfalt að mæla fyrir um þetta í lögum eins og segir hér í greinargerð og því var tekin sú ákvörðun að leggja ekki til breytingar hvað varðaði hlutafélög. Það var gert í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, en sérfræðingar þess voru sammála niðurstöðu velferðarráðuneytis. Því er lagt til að um hlutafélög gildi ákvæði laga um hlutafélög, nr. 2/1995, eftir atvikum svo að hægt sé að kveða á um að stofnframlög myndi sérstakan hlutabréfaflokk samkvæmt ákvæðum laganna. Innan ramma laganna er hægt að kveða á um að sá flokkur hafi annars konar réttindi og skyldur en hefðbundið hlutafé og að félagið sé skyldugt til að kaupa aftur hlutinn að tilteknum tíma liðnum og að kaupverðið sé bundið ákveðnu hlutfalli af virði tiltekinnar fasteignar.

Þetta er málið eins og það er reifað í greinargerð með frumvarpinu, virðulegi forseti. Þá læt ég lokið máli mínu.