139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[10:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir umfjöllun hans um þetta mál, frumvarp til breytinga á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Það má sjálfsagt margt finna að vinnslu þessa máls í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd eins og hv. þingmaður nefndi áðan en ég vil þó benda á það að frumvarpið var lagt fram á þingi 7. apríl síðastliðinn. Það er býsna langt síðan og nefndin hefur haft þetta til umfjöllunar meira og minna frá þeim tíma.

Fyrir nefndina kom fjöldi manns, eins og kemur fram í áliti 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins, fulltrúar útvegsmanna, atvinnulífsins, sjómanna, vélstjóra, Landssambands smábátaeigenda, fiskmarkaða, lögmanna og umsagnir bárust frá fjölmörgum umsagnaraðilum sem nefndin fjallaði um og tók afstöðu til. Ég vil halda því til haga að ég tel að málið hafi fengið ágæta umfjöllun í nefndinni og leitað hafi verið umsagna víða um meðferð þess og það sé sú niðurstaða sem við komumst að, þessi 1. minni hluti, að leggja til að 2. gr. frumvarpsins verði felld út. Ég vil fá að halda því til haga.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því prinsippi í sjálfu sér sem kemur fram í frumvarpinu að innheimta eigi félagsgjöld með þeim hætti sem lagt er til að verði gert eða hvort hann er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að gera.

Í öðru lagi spyr ég hvort hv. þingmaður telji að hægt sé að framkvæma þetta á annan hátt. Ég bendi á að lögin eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 2012 þannig að það er tími til að bregðast við með einhverjum hætti ef menn telja ástæðu til að gera það.