145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til þess að benda hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni á að það er ekki sá sem hér stendur sem leggur fram þetta frumvarp. Það er ekki ég sem legg til að þarna sé einhver aldurstengd regla eða aldursskipting, heldur er það sjálfur Bjarni Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, sem ég trúi að sé í sama flokki og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason. Það er að sjálfsögðu ríkisstjórnin sem leggur þetta mál fram en ekki sá þingmaður sem hér stendur.

Hins vegar eru þær breytingar sem við gerum á frumvarpinu allar til batnaðar, meira að segja sú reikniregla sem hv. þingmaður kýs að kalla Frosta eða íspinna eða eitthvað slíkt, mér finnst langt fyrir neðan allar hellur að fara niður á eitthvert 12 ára plan, ég hef ekki heyrt þetta uppnefni síðan ég var í 12 ára bekk, held ég, en það er ágætt að vita á hvaða þroskastigi hv. þingmaður er þegar hann kemur upp í ræðustól þingsins til að ræða um alvarleg mál. Og að snúa út úr öllu sem stendur í frumvarpinu, halda því fram að verið sé að banna eldra fólki að taka lán eða veðsetja húsin sín með nokkru móti. Ég bið hann að lesa frumvarpið og lesa breytingartillögurnar og mynda sér síðan skoðun á málinu. Ekki nota tímann í þingsal til að villa um fyrir þeim sem á hlýða.