145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

auknar skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[10:59]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður þekkir er það frumvarp sem kom inn og ég mælti fyrir í samræmi við þær tillögur sem allir stjórnmálaflokkar sem áttu sæti í nefndinni tóku undir. (SII: … tala um breytingartillögurnar.) Síðan hefur frumvarpið verið í vinnslu í velferðarnefnd og þar hafa komið fram athugasemdir við frumvarpið, ekki hvað síst þar sem óskað hefur verið eftir að tekið verði upp frítekjumark þannig að við tókum þá ákvörðun að leggja til að velferðarnefnd mundi skoða þá möguleika að setja 25.000 kr. frítekjumark á allar tekjur, sem samsvarar þá 300.000 kr. á ári. Jafnframt er annað sem ég hef lagt mjög mikla áherslu á, að tryggja að lífeyrisþegar fái sambærilegar kjarabætur og búið var að semja um á almennum vinnumarkaði þannig að þeir sem minnst hafa í kerfinu okkar, alveg eins og á vinnumarkaðnum, mundu fá sambærilegar kjarabætur. Þar af leiðandi er horft til ákveðinna breytinga sem snúa að nýju lífeyriskerfi aldraðra og gerðar breytingar þar. Síðan er farið inn eins og hefur verið gert í langan tíma en ég vona svo sannarlega að við getum náð saman, ólíkt því sem gerðist í almannatrygginganefndinni, um kerfisbreytingar til hagsbóta fyrir lífeyrisþega í staðinn fyrir, eins og voru mér mikil vonbrigði, þegar stjórnarandstaðan tók höndum saman með Öryrkjabandalaginu til að leggjast gegn sambærilegum kjarabótum til þeirra.