145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

stofnun millidómstigs.

874. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar í máli sem varðar breytingar á ýmsum lögum vegna stofnunar nýs millidómstigs. Í vor fjölluðum við um það mál í þinginu og það var samþykkt að koma á fót millidómstigi hér á landi. Það kallar á ýmsar lagabreytingar.

Við fjölluðum um þetta mál og gerum á því lítils háttar breytingar sem eru lagatæknilegs eðlis. Við ræddum talsvert um að málsmeðferðartími í málum er varða varanlega forsjársviptingu gæti orðið of langur ef þeim málum yrði áfrýjað til Hæstaréttar og við beinum því í nefndarálitinu til innanríkisráðuneytisins að taka þessa athugasemd til nánari skoðunar með Barnaverndarstofu áður en lögin taka gildi. Það á að gefast tími til þess en að öðru leyti vonumst við til þess að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til.

Undir þetta nefndarálit skrifa sú sem hér stendur, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Birgir Ármannsson.