145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vistvæn framleiðsla í landbúnaði.

[11:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég verð hreinlega að vera ærlegur við hv. þingmann með það að eftir þær fáu vikur eða mánuði sem ég hef verið í atvinnuvegaráðuneytinu sem landbúnaðarráðherra hef ég ekki kynnt mér þetta eða ekki heyrt talað um þetta á þann veg sem hv. þingmaður talar hér um.

Í nýgerðum búvörusamningum sem voru samþykktir er í það minnsta horft til lífrænnar framleiðslu og slíkra þátta. Ég man ekki hvort sérstaklega er talað um vistvæna framleiðslu þar. Líklega er það ekki. Það er hins vegar góð ábending hjá þingmanninum, að ef við erum með reglur og reglugerðir þarf eftirlit að vera til staðar til að þeir sem vilja framleiða vistvæna vöru geti þá staðið undir því sem þeir vilja markaðssetja, þ.e. að skýr greinarmunur sé gerður á því og annarri vöru. Ég mun að sjálfsögðu fara með þessa ábendingu í ráðuneytið og athuga hvernig staðan er á þessu, hvort menn hafi gert eitthvað með vinnu umrædds starfshóps, hvar hún er stödd o.s.frv. En ég verð bara að viðurkenna að ég get ekki svarað þessu öðruvísi hér á þessum punkti.