145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að niðurstaða er að fást í mál er varðar lagningu rafmagnslína að Bakka frá Þeistareykjum. Það er alveg ljóst að sú óvissa sem hefur verið undanfarna daga hefur haft mjög óþægileg og vond áhrif fyrir íbúa Norðurþings og Þingeyjarsýslna allra. Við erum algerlega meðvituð um að í húfi er atvinnuuppbygging sem skiptir miklu máli fyrir svæðið. Í húfi eru eignir fólks sem hefðu rýrnað stórkostlega ef þetta verkefni færi um koll. Í húfi er atvinna þeirra sem hafa á þessari stundu vinnu af því að byggja upp það mikla atvinnutæki sem þarna verður. Þetta skiptir allt máli. Þetta eru engir smámunir og þetta er ekkert sem er hægt að þurrka út af borðinu með einni handarsveiflu. Um er að ræða líf þessa fólks. Ekki er um auðugan garð að gresja. Þegar menn velta því fyrir sér að svona atvinnutæki mengi meira en annað skulum við líka vera meðvituð um að allur flutningur ferðamanna til landsins mengar gríðarlega mikið og jafnvel enn meira. En það sem skiptir máli í þessu öllu er að niðurstaða virðist vera að fást í þetta mál sem verður farsæl fyrir okkur og þýðir að þessi atvinnuuppbygging mun halda áfram. Það er það sem við fögnum hér í dag. Ég vona að við þurfum ekki að standa frammi fyrir því að eitthvað enn eitt nýtt komi upp. Það yrði gríðarlegt áfall fyrir þetta samfélag.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna