151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

búvörulög og búnaðarlög.

229. mál
[17:28]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Í núgildandi atvinnustefnu Viðreisnar, sem var samþykkt á síðasta landsþingi sem kláraði málefnastarfið hjá okkur árið 2018, það varð framhald á þeirri málefnavinnu á landsþinginu í haust, en við frestuðum þeim hluta fram á næsta vor, segir:

„Samkeppni, sjálfbærni, jafnrétti og nýsköpun eru leiðarstef sem eiga að ríkja í öllum atvinnurekstri.“

Og aðeins síðar segir:

„Fyrst og fremst þurfa þó fyrirtækin stöðugleika í efnahagslegri umgjörð og einföldun regluverks.“

Í ljósi þess hverjar áherslur okkar eru varðandi þessa grunnstefnu okkar, varðandi samkeppni, frelsi og einföldun regluverks, er þetta mál m.a. sett fram en við erum líka sannfærð um að það skiptir mjög miklu máli að við eflum og styrkjum íslenskan landbúnað hvað við best getum. En það verður að vera með það að leiðarljósi að við eflum bændur annars vegar og neytendur hins vegar, það eru hagsmunir sem fara saman. Og við þurfum að efla íslenskan landbúnað þannig að hann geti vaxið og dafnað hér til næstu ára og áratuga. Það verður að okkar mati ekki gert í óbreyttu kerfi. Það þarf að taka til í kerfinu en kerfið skilar íslenskum neytendum hvað hæstu verði á landbúnaðarvöru en bændum lægsta skilaverði í öllum samanburði við Evrópulönd. Það er eitthvað brogað í þessu kerfi sem við viljum að verði bætt.

Með áherslu á samkeppni erum við m.a. að endurflytja þetta frumvarp sem við höfum flutt á 149. og 150. löggjafarþingi. Þetta mál hefur tekið lítils háttar breytingum frá því að við fluttum það síðast. Þá má helst kannski nefna að 85. gr. a í búvörulögum frá 1993 var felld brott með lögum um breytingu á búvörulögum 2019. Það er í samræmi við ákvörðun ráðherrafundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar frá því í desember 2015.

En málið gekk þar síðast til atvinnuveganefndar árið 2018, í október, og þá sendum við það til umsagnar til Samkeppniseftirlitsins. Þar kom m.a. fram að frumvarpið miðaði að því að efla samkeppni í landbúnaði og veita bændum frelsi til að hafa val um hvernig afurðum þeirra væri ráðstafað, veita bændum frelsi til að ráða sér meira sjálfir. Það myndi leiða til aukinnar samkeppni á vinnslu-, heildsölu- og smásölumarkaði en jafnframt var bent á að nýsköpun og samkeppni eiga samleið eins og við höfum margoft séð. Það eru mýmörg dæmi, svo falleg dæmi, hvort sem það er í landbúnaði, í sjávarútvegi eða hvað annað, þar sem við sjáum einmitt að samkeppni og nýsköpun eiga mjög mikla samleið og annar þátturinn getur vart þrifist án hins.

Markmiðið með frumvarpinu er að auka frelsi og sjálfræði framleiðenda búvara til markaðssetningar á afurðum sínum á innlendum og erlendum mörkuðum. Í því felst m.a. að afnema sérreglu búvörulaga, það er sérregla í búvörulögunum núna, sem gildir um mjólkuriðnaðinn, og draga úr afskiptum ríkisvaldsins af verðlagningu, framleiðslu og vinnslu búvara — að draga úr afskiptum ríkisvaldsins. Ég hefði alla jafna haldið að þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ég geri kannski ekki sömu kröfu til Miðflokksins hvað það varðar, myndu fagna því að við værum að reyna að draga úr afskiptum ríkisvaldsins af atvinnugreinum, að hafa rammann einfaldan, láta samkeppnina gilda, láta frelsið gilda og styðja bændur með öðrum leiðum en með tollvernd, frekar að auka beina styrki til bænda í landbúnaði til að ákveða sjálfir hvað þeir vilja gera, hvaða leið þeir meta besta til að rækta sína jörð.

Í gildandi lögum hafa bændur sérstaka stöðu sem helst verður líkt við stöðu launþega í þjónustu afurðastöðva og hins opinbera. Við teljum að staða bænda sé ekki nægilega sterk þegar kemur að samskiptum við afurðastöðvarnar og ríkisvaldið í leiðinni. Til að stuðla að bættum kjörum bænda þarf að búa til regluverk sem gerir bændum kleift að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir eða eftir því sem þeir kjósa. Þannig verði þeim gert fært að starfa sem atvinnurekendur og njóta kosta þess að reka bú sín á opnum markaði.

Í frumvarpi þessu er því lagt til að verðlagsnefnd búvara og framkvæmdanefnd búvörusamninga verði lagðar niður og þannig stuðlað að jafnræði bænda á markaði og að verðmyndun verði í samræmi við almenn markaðslögmál. Jafnframt er lagt til að felld verði niður heimild til að gera fyrir fram ákveðna framleiðnikröfu til afurðastöðva eða um einstakar framleiðsluvörur, láta markaðinn meira ráða. Svo segjum við: Samhliða því breytum við styrkjafyrirkomulaginu og reynum að auka beina styrki til bænda gegn því að frelsið verði meira.

Enn fremur er lagt til að felld verði niður heimild afurðastöðva samkvæmt 71. gr. búvörulaga til að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli afurða fyrir verðmyndun mjólkur og mjólkurafurða. Ákvæðið var lögfest með lögum frá árinu 2004, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara, sem voru frá árinu 1993. Á þeim tíma einkenndi fjárhagsvandi flest svið landbúnaðarins, sem aðallega var til kominn vegna óhagstæðra rekstrareininga og lögbundinnar skyldu afurðastöðva og mjólkuriðnaðarins til þess að jafna landsbundinn aðstöðumun einstakra afurðastöðva og fjarlægð frá stærstu mörkuðum landbúnaðarvara. Afurðastöðvum í mjólkuriðnaði hefur fækkað og mikil hagræðing hefur átt sér stað í þau 15 ár sem ákvæðið hefur staðið í búvörulögum. Til að tryggja samkeppni á mjólkurmarkaði og stuðla þannig að nýsköpun og vöruþróun er nauðsynlegt að vinnsluaðilum sé tryggður aðgangur að hrámjólk/ógerilsneyddri mjólk í lausu máli.

Hafa undanþágur frá samkeppnislögum samkvæmt búvörulögum verið mjög umdeildar og fyrir liggja fjölmörg álit Samkeppniseftirlitsins vegna beitingar og túlkunar á þeim. Með þessu frumvarpi er lagt til að veigamiklar undanþágur frá samkeppnislögum, sem sérákvæði hafa gilt um, verði afnumdar. Verði frumvarpið að lögum eru leyst helstu ágreiningsefni sem uppi hafa verið vegna beitingar og túlkunar á undanþágum frá samkeppnislögum í búvörulögum.

Eins og ég segi: Við teljum að það sé mikilvægt að byggja upp heilbrigt, sterkt landbúnaðarkerfi á grunni þessara almennu reglna sem gilda um samkeppni, frelsi, nýsköpun og jafnrétti.

Frumvarpið er samið með hliðsjón af gildandi lögum og reglum í nágrannalöndum Íslands. Í skuldbindingaskrá Íslands að GATT-samningnum er kveðið á um skuldbindingar Íslands til þess að veita þjónustuveitendum frá aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar aðgang að markaði sínum. Þar er jafnframt kveðið á um skuldbindingar Íslands til þess að hafa ekki í gildi reglur sem fela í sér mismunun sem sé innlendum þjónustuveitendum í hag gagnvart erlendum þjónustuveitendum.

Frumvarpið skiptist í tvo kafla, annars vegar breytingar á ákvæðum búvörulaga, nr. 99/1993, og hins vegar á ákvæðum búnaðarlaga, nr. 70/1998.

Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á tilgangi búvörulaga þar sem skerpt er á mikilvægi frjálsrar samkeppni í landbúnaði, og ég hefði talið að það væri fagnaðarefni fyrir suma. Í kaflanum er jafnframt mælt fyrir um að framleiðendur búvara fari að meginreglu með eigið fyrirsvar við gerð samninga á grundvelli laganna en þeim sé þó heimilt að fela Bændasamtökum Íslands að fara með fyrirsvar sitt eða stofna önnur samtök í þeim tilgangi. Þá er fellt brott ákvæði laganna um að samningar skuli vera bindandi fyrir framleiðendur viðkomandi búvara hvort sem þeir eru félagar í Bændasamtökum Íslands eða standa utan þeirra og í staðinn kveðið á um að samningar á grundvelli laganna séu aðeins bindandi fyrir þá framleiðendur, bændur, sem teljast aðilar að hverjum samningi fyrir sig. — Það er verið að undirstrika frelsi bænda, að þeir séu ekki bundnir af þeim samningum sem þeir standa utan við.

Í kaflanum eru lagðar til ýmsar orðalagsbreytingar á lögunum, sem miða að því að jafna stöðu allra búvöruframleiðenda, sama hvort þeir tilheyra Bændasamtökum Íslands eða öðrum samtökum eða standa utan samtaka. Þá eru felld brott öll ákvæði um verðlagsnefnd búvara og framkvæmdanefnd búvörusamninga, eins og ég gat um áðan. Tilgangurinn með því er að draga úr miðstýringu verðmyndunar og auka sjálfstæði bænda sem framleiðenda á markaði. Með því að leggja niður verðlagsnefnd búvara verður einnig unnið að því að gera styrkjakerfi landbúnaðarins gagnsærra. Ég held það skipti mjög miklu máli fyrir bændur og fyrir alla sem unna íslenskum landbúnaði að gera styrkjakerfið gegnsærra, skiljanlegra, af því að við Íslendingar viljum styðja við okkar landbúnað. Þetta eru öflugar vörur, það eru sóknarfæri í landbúnaði en við viljum líka vita hvert styrkirnir fara. Við teljum að með gegnsæinu komi stuðningurinn, skilningurinn, samheldnin einmitt með íslenskum landbúnaði.

Samhliða breytingunni varðandi það að leggja niður verðlagsnefnd búvara er jafnframt rétt að koma á fót beinum styrkjum til bænda, eins og ég gat um áðan, sem stuðli að aukinni nýsköpun og betri nýtingu lands og gæða. Þetta er algjört lykilatriði að okkar mati, að styrkjunum verði beint til bænda sjálfra þannig að þeir fái sjálfir meiru ráðið um það hvernig þeir vilja haga sinni jarð- og landnýtingu, vera með hvata í styrkjunum til nýsköpunar og um leið betri nýtingu landsins sjálfs og gæða. Ég tel einmitt að þarna séu mörg sóknarfæri, ekki síst í tengslum við það hvernig við nýtum landið. Hugsum um loftslagsmál, hugsum um umhverfismál; fáir ef nokkrir eru betri til þess fallnir að standa undir öflugri stefnu á sviði umhverfis- og loftslagsmála en einmitt bændur sjálfir.

Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að ákvæði um framkvæmdanefnd búvörusamninga verði fellt brott og lagðar til breytingar sem draga úr sérstöðu Bændasamtaka Íslands sem fyrirsvarsaðila búvöruframleiðenda í samningaviðræðum og samskiptum við ríkið. Við erum að leggja áherslu á að staða bænda sem velja að vera ekki aðilar að Bændasamtökunum verði jafn sterk og þeirra sem eru innan þeirra ágætu samtaka. Í 14. gr. frumvarpsins er enn fremur kveðið á um aukinn stuðning Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og ríkissjóðs við umhverfisvernd, nýliðun, skógrækt, lokun framræsluskurða, gerð smávirkjana og þróun á sviði ferðaþjónustu. Þetta eru allt áherslur sem við í Viðreisn, og flutningsmenn frumvarpsins, teljum mikilvæga, að leggja einmitt áherslu á þessa þætti, nýliðunina, skógræktina, umhverfisverndina, uppbyggingu innviða. Við þurfum að fara ræða enn frekar um það hvernig við getum orðið sjálfbær, t.d. varðandi kornrækt, kornhlöður, hvernig við ætlum að reyna að ná sem mestri uppbyggingu sjálf í kjarnfóðri. Við teljum að það náist með því að breyta áherslum í styrkjunum innan landbúnaðarins og reyna að stuðla að enn frekari hvötum, m.a. í gegnum Farmleiðnisjóð landbúnaðarins sem ýtir þá undir nýsköpun á þessu sviði, jafnvel gerð smávirkjana. Og það er ánægjulegt að sjá hvernig bændur eru að nýta sér nærumhverfið og tæknina og ýta þannig undir umhverfismál.

Umræddar breytingar eru viðamiklar en að mati flutningsmanna frumvarpsins til þess fallnar að bæta hag íslenskra bænda og stuðla að heilbrigðri samkeppni á markaði, bændum og neytendum öllum til heilla.

Ég vonast til þess að atvinnuveganefnd fjalli um málið. Ég sit sem áheyrnarfulltrúi í atvinnuveganefnd og hefur verið erfitt að fá málefnalega umfjöllun um málið, hvað þá að það verði tekið til afgreiðslu. Ég geri mér grein fyrir því, eins og nefndin er skipuð núna, að ekki eru margir sem munu styðja að málið hljóti afgreiðslu. En þetta er eitt af þeim málum sem ég tel að áhugavert væri að fá í afgreiðslu hingað inn í þingsal og fá þannig afgerandi á hreint hverjir munu styðja mál eins og þetta þar sem kveðið er á um heilbrigðar reglur um samkeppni og aukinn stuðningur til bænda skili sér á endanum til bænda og neytenda.