154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[18:11]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hér gerir hann að umtalsefni dóminn í máli Sørensens og Rasmussens gegn Danmörku sem fór fyrir Mannréttindadómstól Evrópu árið 2006. Þar var deilt um það sem er kallað útilokunarákvæði, „closed shop agreement“, með leyfi forseta, og aðildarskyldu. Forgangsréttarákvæðin á Íslandi eru svolítið annars eðlis og bundin við að hæfir félagsmenn bjóðist. Ég hygg að farið sé ágætlega yfir þetta í umsögn Alþýðusambands Íslands um þetta frumvarp.

Hvað varðar neikvætt félagafrelsi yfirleitt og það fyrirkomulag sem er við lýði á Íslandi þá get ég svarað því að ég og við í Samfylkingunni höfum ekki áhuga á að kollvarpa því fyrirkomulagi sem nú er ríkjandi, t.d. með því að taka beinlínis upp aðildarskyldu. Greiðsluskyldan sem nú er við lýði á sér þokkalegar stoðir í íslenskri stjórnskipan. Það var sérstaklega komið inn á það þegar gerðar voru breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar árið 1995 að neikvætt félagafrelsi, sem þar var lögfest kirfilega, ætti ekki að raska þessu fyrirkomulagi. Meira hef ég ekki að segja um þetta í bili.