154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

313. mál
[18:14]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einfaldlega ekki rétt að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi með einhverjum hætti slegið því föstu að greiðsluskylda feli í sér brot gegn neikvæðu félagafrelsi í þeim skilningi sem við erum að tala um hér í dag. (TBE: Forgangsréttarákvæði.) Er forgangsréttarákvæðið í Sørensen og Rasmussen? (TBE: Já.) Ekki sams konar ákvæði og er við lýði á Íslandi, það er alveg á hreinu. Að sama skapi hefur Alþjóðavinnumálastofnunin lagt ríka áherslu á að forgangsréttarákvæði séu heimil og þau hafa verið mjög sterkt og mikilvægt tæki hér á Íslandi til þess að tryggja skipulagðan vinnumarkað, samloðun og mikla félagsaðild. Ég vara eindregið við því að kollvarpa þessum reglum sem hafa reynst vel, skilað okkur sterkri verkalýðshreyfingu, mikilli félagsaðild og þar með sterkri samningsstöðu gagnvart atvinnurekendum. Það er engin tilviljun, virðulegi forseti, hve kaupmáttur hefur aukist mikið hér á Íslandi og hvað við stöndum að mörgu leyti vel. Það er ekki síst vegna þess að vinnumarkaðslöggjöfin, þótt sífellt sé verið að finna henni hitt og þetta til ama, hefur staðist ágætlega tímans tönn. Það er ekkert í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands né í mannréttindasáttmála Evrópu og þeim alþjóðlegu réttarheimildum sem er vísað til þegar við tölum um mannréttindi sem ætti að raska þessu fyrirkomulagi.