139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

fundarstjórn.

[11:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Frú forseti. Það sannast í dag að þingið ræður málefnum sínum ekki sjálft. Allt síðdegið í gær var ég að reyna að koma því til leiðar að hér kæmist mál á dagskrá sem snýr að því að hægt sé að fara fram með þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-samninginn samhliða stjórnlagaþingskosningu. Þetta mál er tímasett því að dagsetningin er 27. nóvember. Við þessu var ekki orðið. Ég bað um að 13. mál á dagskrá þingsins mundi víkja þar sem ég er 1. flutningsmaður fyrir því. Því var hafnað.

Frú forseti. Á hvaða leið er Alþingi Íslendinga? Hvers vegna hefur framkvæmdarvaldið heljartök á þessu þingi? Ég veit að þetta mál hentar ekki ríkisstjórninni nú um stundir því að hún getur ekki hugsað sér að fara með þetta mikilvæga mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfstæði þingsins verður að tryggja, ég óska eftir því að dagskrá þessa þingfundar verði skoðuð og þetta mál fái brautargengi í þinginu í dag því að þingið er að fara heim í tveggja vikna frí. Gleymum (Forseti hringir.) því ekki.