151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

opinber fjármál.

143. mál
[19:08]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál sem nær sérstaklega til þeirra ákvæða laganna sem snúa að mati á áhrifum stjórnarfrumvarpa. Svo ég útskýri í hverju breytingin felst þá segir í 66. gr. gildandi laga að hver ráðherra skuli leggja mat á áhrif stjórnarfrumvarpa, þar með talið fjárhagsleg áhrif, áður en þau eru lögð fyrir ríkisstjórn og Alþingi samkvæmt reglum um starfshætti ríkisstjórnarinnar.

Þetta frumvarp snýst um að auk fjárhagslegra áhrifa verði sérstaklega talin upp tvö atriði í viðbót; annars vegar mat á áhrifum á loftslagið og hins vegar að jafnréttismati, sem framkvæmt hefur verið á hluta frumvarpa, verði bætt þarna inn og gert að almennri reglu. Þetta er náttúrlega í anda þess að vönduð lagasetning er ekki í alvöru vönduð nema hún líti til sem flestra ólíkra hagsmuna þegar verið er að greina áhrif breytinganna sem felast í fyrirhugaðri löggjöf. Mat á fjárhagslegum áhrifum hefur náð að vinna sér sess þannig að nú fáum við frumvörp til þingsins nánast undantekningarlaust með nokkuð vel ígrunduðu mati á fjárhagslegum áhrifum, og alveg stórkostlega vel ígrunduðum miðað við það sem gerðist fyrir ekkert allt of mörgum árum. Unnið hefur verið að annars konar mati samhliða og jafnvel verið sett stefna um slíkt mat.

Mat á áhrifum lagasetningar á jafnrétti kynjanna má segja að hafi byrjað um árið 2009 og varð síðan að sérstöku metnaðarmáli þegar ríkisstjórn samþykkti á fundi sínum árið 2015 að sem hluta af innleiðingaráætlun kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar yrði sett markmið um að ráðuneytið framkvæmdi jafnréttismat á þeim frumvörpum sem talin væru hafa miðlungs eða mikil áhrif á stöðu kynjanna. Þetta var metnaðarfullt markmið að því leyti til að það átti að enda í 100%. En það fór rólega af stað þannig að árið 2015 átti að meta eitt til tvö frumvörp, 10% árið 2016 og upp í það að árið 2019 færu 100% frumvarpa í gegnum slíkt mat. Skemmst er frá því að segja að þetta markmið hefur ekki náðst og dálítið fjarri því. Fjármála- og efnahagsráðherra svaraði fyrirspurn frá mér á 148. þingi þar sem fram kom að t.d. árið 2017 hefði velferðarráðuneytið metið 33% frumvarpa, dómsmálaráðuneytið 0%. Ég held að það liggi nú nánast í eðli þessara ráðuneyta að mál sem frá þeim koma hafa gjarnan miðlungs eða mikil áhrif á stöðu kynjanna í samfélaginu, þannig að 0–33% á þriðja ári innleiðingar, sem átti að enda í 100%, get ég ekki kallað nægjanlegt.

Það er brýnt að festa framkvæmd þessa mats í sessi og þess vegna leggjum við til í þessu frumvarpi að setja það skýrt inn í lög. En það er líka brýnt að gerð sé einhvers konar krafa um sérþekkingu. Við náum ekki utan um það í þessu frumvarpi en mögulega væri hægt að ræða það í fjárlaganefnd þegar málið fer þangað til umfjöllunar, hvernig hægt væri að gera kröfu um að það starfsfólk ráðuneyta sem vinnur jafnréttismat hafi sérþekkingu á jafnréttismálum til að leggjast af alvöru yfir málin eða leiti sér aðstoðar utanaðkomandi sérfræðinga, af því það er einfaldlega þannig að við erum ekkert öll flink í að setja upp kynjagleraugu. Það getur verið fólk uppi í ráðuneytum sem er alveg glimrandi hæfir embættismenn þegar kemur að því að semja lög og passa að þau uppfylli ýmis skilyrði, en kynjagleraugun eru ekki eitt af því sem þeir eiga í sínu vopnabúri.

Ég hef gjarnan nefnt dæmi um jafnréttismat sem hefði alveg eins mátt sleppa að gera því að höndunum var kastað til þess. Það var á 149. þingi þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um álaveiðar. Lögin heita sennilega lög um lax- og silungsveiði, en þetta sneri að álaveiðum. Það er svo merkilegt að á Íslandi er eiginlega ekkert vitað um álaveiðar. Eftirfarandi kom fram í greinargerðinni, það stóð bara svart á hvítu: Afar litlar upplýsingar eru til um álaveiðar við Ísland. Engu að síður, nokkrum línum neðar í greinargerðinni, sá ráðuneytið sig fært til þess að segja að ákvæði þess hafi áhrif á konur jafnt sem karla og hafi því ekki áhrif á stöðu kynjanna.

Ég spurði út í þetta í skriflegri fyrirspurn og svar ráðherra er kannski áframhaldandi gamanmál vegna þess að þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Takmarkanir á veiðum hafa áhrif á bæði konur og karla og ekki verður séð að skortur á upplýsingum um magn veiddra ála skipti máli í þessu samhengi.“

Setjum upp dálitla hugartilraun. Ímyndum okkur hvernig lög, sem í orði kveðnu hafa jöfn áhrif á kynin, geti í reynd haft ólík áhrif á þau. Segjum að allir álaveiðimenn landsins hafi verið af einu kyni. Hefur lagabreyting þá áhrif jafnt á kynin? Ég er ekki kynjafræðingur, en ég myndi halda að þetta kæmist ekki í gegnum síuna hjá þeim sem eru flinkust í þeim fræðum. Ég nefni þessa gamansögu og vísa til svars sem ég fékk frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og reyndar ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra líka sem álíka gamanefni, til þess að brýna fyrir okkur að það nægir ekki að lögfesta skylduna, það þarf líka að tryggja að hún hafi eitthvað að segja. Ef við stimplum öll frumvörp með jafnréttismati og segjum: „Já, þetta hefur verið skoðað“, en það er enginn dýpt í því og það hefur engar afleiðingar, þá gætum við alveg eins sleppt því.

Þá langar mig reyndar að nefna, sem er ekki í jafn gamansömum tón, fjárlagafrumvarpið sem við höfum til umfjöllunar þessa dagana, þar sem er þetta fína mat á áhrifum á jafnrétti kynjanna, fjórar síður. Farið er yfir aðgerðir vegna áhrifa Covid-19 faraldursins. Farið er yfir það að aðgerðir stjórnvalda hafi beinst með mjög ólíkum hætti að kynjunum, fjármagni hafi verið varið til greina þar sem karlar eru í meiri hluta, en hættan sé sú að kreppa muni að í opinberri þjónustu þar sem konur eru í meiri hluta. Hérna stendur þetta, en ég er ekki viss um að neitt verði gert með þetta. Það er náttúrlega vandinn, virðulegur forseti, þetta má ekki heldur vera fjarvistarsönnun. Það má ekki leggja fram frumvarp og jafnréttismatið leiðir í ljós að það hafi slæm áhrif á eitt kyn eða einhver hrikaleg jaðaráhrif á einhverja hópa, en þannig sé það nú bara. En þetta mat á að hafa áhrif á lagasetninguna. Þetta á að hafa áhrif á það hvernig ráðuneytið skilar málinu frá sér. Og síðan á það að hafa áhrif á hvernig við afgreiðum málin hér innan húss. Varðandi álaveiðarnar langaði mig helst að senda ráðherrann öfugan með málið aftur upp í ráðuneyti þegar ég ræddi um þetta við hann hér í salnum, af því að mér fannst þetta svo aum afgreiðsla á jafnréttismatinu, sem mér finnst skipta máli að sé unnið. Mér finnst skipta máli að það sé vel unnið og að eftir því sé farið.

Hitt atriðið sem lagt er til í þessu frumvarpi að bætt verði við í lög um opinber fjármál, sem einu af þeim atriðum sem líta beri til við mat á áhrifum stjórnarfrumvarpa, er mat á loftslagsáhrifum. Ég fæ lánað úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin stefnir að því að allar stærri áætlanir ríkisins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum.“

Þetta er uppáhaldslínan mín í þessari stefnuyfirlýsingu af því að þetta er svo mikilvægt. Áætlanir sem fara hér í gegnum salinn hafa gríðarleg áhrif á loftslagsmál. Er þar fyrst að nefna væntanlega fjáraflsfrekustu áætlun ríkisins, samgönguáætlun, sem skiptir öllu þegar kemur að því að ná markmiðum í loftslagsmálum. En vittu til, forseti. Þetta mat hefur aldrei verið framkvæmt, ekki á þeim tveimur samgönguáætlunum sem hingað hafa komið, ekki á einni einustu áætlun sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir þetta þing. Ég hef spurt ráðherra út í hverju það sæti og þeir fara undan í flæmingi og benda á að umhverfismat áætlana nái yfir þetta, það eigi einhvern veginn að tryggja að litið sé til loftslagsmála. Umhverfismat áætlana varð til sem verkfæri þegar þessi stefnuyfirlýsing var samin og ég hélt að þetta loftslagsmat ætti að vera eitthvað nýtt umfram það. Ég vil enn þá trúa því. Þess vegna er svo miður að ríkisstjórninni hafi enn ekki tekist, eftir þrjú ár í Stjórnarráðinu, að skila hingað einni einustu áætlun sem metin hefur verið út frá loftslagsmarkmiðum.

Ég tók þessa hugmynd úr stefnuyfirlýsingunni, setti hana hér í frumvarpsform og lét hana ekki ná til áætlana heldur stjórnarfrumvarpa, svo upprunans sé getið. En eftir að ég lagði þetta mál fram birtist aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, hún birtist í júní sl. Þar segir, virðulegur forseti:

„Tekin verður upp sú nýbreytni að lagafrumvörp verða sérstaklega rýnd út frá loftslagsáhrifum þeirra.“

Þetta þóttu mér frábær tíðindi vegna þess að þetta vantar. En svo hélt ég lestrinum áfram og missti aðeins vonina sem ég hafði haft, því að áfram segir, með leyfi forseta:

„Til að byrja með verður þetta gert við valin frumvörp í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en síðar er stefnt að því að þetta eigi við um öll frumvörp sem lögð verða fyrir Alþingi.“

Það á sem sagt að endurtaka mistökin við innleiðingu á jafnréttismatinu í loftslagsmatinu. Það á að byrja á þeim frumvörpum sem væntanlega er auðveldast að rýna. Ég get ekki ímyndað mér að frumvörp úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu verði sérstaklega þung í vöfum þegar kemur að mati á áhrifum á loftslagið. Hvernig hefði verið ef við hefðum fengið umferðarlög metin út frá áhrifum á loftslagið? Hvernig væri ef fjárlög væru metin þannig? Hvernig væri ef við settum metnað í að meta frumvörp sem eru erfið, sem hafa áhrif á loftslagið?

Nú er dálítið langt síðan ég las tekjubandorminn síðast. Hann er einmitt frumvarp. Hann snýst m.a. um hagrænu hvatana sem loftslagsaðgerðir byggja að stórum hluta á. Eins og ég segi, það er dálítið síðan ég las hann síðast, en ég man ekki eftir því að lagt sé mat á hvaða áhrif það hefur á losun Íslands að kolefnisgjald sé aðeins verðlagsuppfært en ekki hækkað. Og það er meira að segja verðlagsuppfært það lítið að það mætti jafnvel segja að það lækki að raungildi milli ára. Það hefði verið gott að fá mat á loftslagsáhrifum frekar en á einhverju frumvarpi úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, þar sem væri væntanlega miklu þægilegra fyrir stjórnina að geta stært sig af jákvæðu loftslagsmati.

Alla vega er í frumvarpinu lagt til að stíga þetta formlega og bindandi skref gagnvart öllum lagafrumvörpum, ekki bara stærri áætlunum ríkisins, eða að byrja á auðveldustu frumvörpunum í umhverfisráðuneytinu, heldur öllum lagafrumvörpum. Það myndi sýna að málefni loftslagsbreytinga nytu forgangs við opinbera stefnumörkun. Með því að lyfta loftslagsmálunum upp á það stig að vera eitt af aðalatriðunum sem öll frumvörp verði að vera metin eftir væri líka hægt að styrkja opinbera umræðu þannig að við gætum með gagnsæjum hætti vegið og metið hvort frumvörp væru til bóta eða ekki ef við vildum hugsa til langs tíma. Það hefði mjög góð áhrif, held ég, á það að vinna Stjórnarráðið í átt að vandaðri lagasetningu sem stenst skoðun gagnvart framtíðinni.

Þá er kannski rétt að nefna að þetta frumvarp, sá hluti þess sem snýr að loftslagsmatinu, kallast beint á við ákall loftslagsverkfallsins, unga fólksins sem berst þar fyrir framtíð sinni, ákall þess til forsvarsfólks ríkisstjórnarinnar sem afhent var í lok september á síðasta ári. Þau kölluðu reyndar eftir því að meta skyldi kolefnisspor vegna allra aðgerða þingsins og voru þá að tala um frumvörp, þingsályktunartillögur og allt það. Mér finnst það góð hugmynd. Lög um opinber fjármál — því miður, sú grein sem þetta frumvarp snýr að tekur bara til frumvarpa frá stjórninni. En af því ég er með hv. fulltrúa í fjárlaganefnd í forsetastóli akkúrat núna þá veit ég að einhver í nefndinni er að hlusta á mig. Ég velti því upp hvort nefndin gæti kannski skoðað þetta, hvort ekki mætti skoða það að ekki bara auka kröfurnar gagnvart ríkisstjórninni, og þá enn frekar en hér er lagt til, þannig að allar áætlanir og frumvörp frá stjórninni þurfi að fara í gegnum loftslagssíu, heldur líka að við getum einhvern veginn rýnt það sem er samið af þingmönnum og lagt hér fram af okkur. Ég veit ekki alveg hvernig við ættum að fara að því, nefndin sér um það.

Þetta er ósköp einfalt mál, virðulegur forseti. Þetta er svo einfalt. Þegar ráðuneyti vinna að frumvörpum þá fara þeir í gegnum gátlista, sem er leið Stjórnarráðsins til að tryggja samræmda og vandaða framkvæmd við samningu frumvarpa. Hluti af þeim gátlista er kafli um áhrifamat. Sá kafli er, ef ég man rétt, með 12 liðum. Þessir þrír liðir eru þar á meðal. Fjárhagsleg áhrif, loftslagsáhrif og áhrif á stöðu kynjanna eru meðal þeirra atriða sem ráðuneyti geta valið hvort þau líti til. Nema fjárhagslegu áhrifin. Þau verða ráðuneytin að skoða.

Ég er einfaldlega að leggja til, í ljósi þess að jafnréttið og loftslagsmál eru þvílíkir grundvallarþættir þegar kemur að því að skapa hér réttlátt samfélag til framtíðar, að við undirstrikum þetta mikilvægi með því að lyfta þessum tveimur þáttum upp á sama stað og fjárhagslegu áhrifunum. Af því að, fjandinn hafi það, forseti, fjárhagsleg áhrif eru ekki mikilvægari en sigur í baráttunni við loftslagsvandann og að tryggja hér jafnrétti kynjanna til framtíðar.

Virðulegur forseti. Ég hlakka til að sjá hvernig fjárlaganefnd gengur að takast á við þetta mál vegna þess að ég trúi því einlæglega að skref í þessa átt séu skref til góðs.