154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Gleymdu hugmyndinni, sagði Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltirninga, þegar tillaga borgarfulltrúans Lífar Magneudóttur var borin upp um að Reykjavíkurborg myndi sameinast Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ. Svipað svar var að fá frá bæjarstjóra Mosfellsbæjar enda hefur það ekki verið á dagskrá í Mosfellsbæ að vilja sameinast hítinni í Reykjavík. En ég skil mjög vel að borgarfulltrúar í Reykjavík horfi til nágrannasveitarfélaganna þar sem ýmislegt virðist ganga mun betur í rekstri þeirra sveitarfélaga. Ég held að við ættum kannski frekar að huga að því að það kunni að vera hverfi innan Reykjavíkur sem myndu vilja sameinast öðrum sveitarfélögum. Ég hef til að mynda reglulega heyrt í Grafarvogsbúum sem kvarta sáran yfir því að vera hluti af Reykjavík og því kerfi sem þar er boðið upp á, myndu svo gjarnan vilja fá að koma yfir í fallegu Mosfellssveitina og heyra frekar undir bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Og ég heyri það líka á íbúum á Seltjarnarnesi og bæjarfulltrúum þar að það er kannski möguleiki að fólkið í Vesturbænum myndi vilja sameinast íbúum Seltjarnarness í að bæta samgöngumálin þar sem Seltirningar og margir í Vesturbænum kvarta sáran yfir því að það sé algerlega lokað á þá þegar kemur að samgöngumálum og ekki við þá rætt þegar verið er að gera stórtækar breytingar sem hafa áhrif á samgöngur þeirra og öryggismál Seltirninga. Ég vil þá frekar beina því til hverfafélaganna í Reykjavík að huga að því hvort þau geti bara hreinlega sagt sig úr Reykjavík og óskað eftir því að koma inn í sveitarfélögin hér í kring sem virðast vera mun betur rekin en höfuðborgin okkar.