145. löggjafarþing — 172. fundur,  13. okt. 2016.

þingfrestun.

[12:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna flytja forseta bestu þakkir fyrir samstarfið á kjörtímabilinu og hlý orð í okkar garð.

Í dagsins önn þarf að stýra. Í dagsins önn þarf líka að sýna lipurð og leikni, kunna á áralagið, ölduganginn og kunna að gá til veðurs. Þá er betra að vera að vestan [Hlátur í þingsal.] í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Gá til veðurs og bregðast við veðri. Lesa í svip, lesa í fas, stíga fram þegar það á við og gefa eftir þegar það á við. Ekki heiglum hent, tekst stundum vel og stundum síður.

Á þessu kjörtímabili eftir eitt mesta sviptingatímabil sögunnar hefur okkur öllum verið töluverður vandi á höndum. Við höfum tekist á við áskoranir og krefjandi verkefni og á sama tíma glímt við dvínandi traust á stofnunum samfélagsins, þá ekki síst stjórnmálunum.

Einar K. Guðfinnsson, hæstvirtur forseti, hefur sýnt okkur hvað reynslan er dýrmæt. Hann hefur verið stjórnarandstæðingur — reyndar óþarflega stutt — [Hlátur í þingsal.] verið stjórnarþingmaður og verið ráðherra. Hann þekkir öll hlutverkin, fundarstjórn forseta sem forseti og sem reiður stjórnarandstæðingur í glímu við dagskrá dagsins, hann skilur stöðu ráðherrans sem bíður eftir að fá að mæla fyrir máli, ráðherrans sem er kallaður í þingsal, jafnvel að heiman, stjórnarþingmannsins sem leggur sig fram um að ná málum fram, vill sjá árangur fljótt, vill sjá breytingar og stefnumálin verða að veruleika. Hann þekkir stöðu stjórnarandstæðingsins sem óskapast yfir dagskránni, fundarstjórninni, talar um vanbúin mál og allt of seint fram komin.

Hann þekkir spor nýja þingmannsins sem vill bæta vinnubrögðin og fá áætlun fram í tímann og reynir að skilja hvernig mælendaskráin styttist og lengist á víxl og af hverju fólk stikar um ganga, af hverju það fer undir stigann, af hverju það fer allt í einu núna inn í færeyska, af hverju það fer niður í forsætisnefndarherbergið þegar þinglokin nálgast. Hann þekkir spor reynda þingmannsins í stjórnarandstöðu sem gerir kröfu um að ráðherra komi tafarlaust í þingsal kl. 1 um nótt, heimtar nafnakall eða leggur fram tillögu um rökstudda dagskrá.

Öll þessi reynsla og yfirsýn er ómetanleg. Mikilvægast af öllu er þó virðing fyrir Alþingi. Meira en virðing, í rauninni væntumþykja. Að þykja vænt um Alþingi er nefnilega leiðarljós sem er gríðarlega mikilvægt. Þegar okkur tekst best til vinnum við saman að því að leysa flókin verkefni, leiðum þungan ágreining til lykta og þegar okkur gengur best að vinna saman að snúnum og stórum málaflokkum frá grunni erum við að sýna Alþingi og um leið þjóðinni sóma og virðingu.

Alþingi er vettvangur lýðræðisins þar sem við förum með trúnað gagnvart kjósendum okkar, fólkinu í landinu. Þess vegna verðskuldar Alþingi sóma og virðingu. Þess vegna er Alþingi ekki bara vinnustaður eða vettvangur átaka og deilna heldur staðurinn þar sem lýðræðið og lýðveldið á sér skjól þegar best lætur, vettvangurinn þar sem ágreiningurinn er sýnilegur og mikilvægur en líka málstofa þar sem umræðan á heima og mál eru leidd til lykta með rökum.

Virðulegur forseti. Alþingi er hjartað í lýðræðinu á Íslandi. Oft er talað illa um Alþingi og það er því miður til siðs að tala niður til þingsins og þingmanna. Það gerum við okkur líka sek um sjálf. Það er slæmt. Við þurfum að standa með þingræðinu sem er gott stjórnarform, það er oft seinlegt og oft vesen, finnst okkur, en það er ekkert betra til. Hér ættum við að sameinast um að styrkja Alþingi og virðingu þess meðal þjóðarinnar. Einar K. Guðfinnsson hefur með framgöngu sinni sem forseti stuðlað að því að styrkja Alþingi og þingræðið. Ég þakka honum fyrir það fyrir okkar hönd, það er dýrmætt framlag til íslenska lýðveldisins.

Fyrir hönd okkar þingmanna vil ég færa forseta og fjölskyldu hans bestu kveðjur. Skrifstofustjóra Alþingis og öðru starfsfólki Alþingis þakka ég einnig framúrskarandi störf, lipurleika og fúslega veitta aðstoð hvernig sem stendur á, í hvaða skapi sem við þingmenn erum þann daginn.

Virðulegur forseti. Um leið og ég vík úr ræðustóli vil ég leyfa mér að afhenda þér, kæri Einar, þennan blómvönd fyrir hönd okkar þingmanna og ítreka góðar óskir þér til handa. Það hefur oft verið mikið um að vera í samskiptum okkar tveggja eins og eðlilegt er en framvegis geturðu áreiðanlega farið í barnaafmæli og sinnt erindum án þess að eiga á hættu að formaður þingflokks Vinstri grænna ónáði þig. Ég bið fyrir sérstakar kveðjur og innilegar þakkir til Sigrúnar.

Lifðu heill. Ég bið þingmenn að taka undir orð mín til forseta með því að rísa úr sætum, til fjölskyldu hans og þakkir til starfsfólks.

Heill þér, forseti! — [Þingmenn risu úr sætum.]