143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:13]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Við leitum gjarnan í stöðugleika en kjósum vöxt. Þetta er þversögn, einföld þversögn sem mögulega útskýrir af hverju þetta mál er ekki í eðli sínu einfalt. Þegar við tölum um vöxt getum við verið að tala um efnahagslegan vöxt, hagvöxt. Ég vil auðvitað þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þá skýrslu og þær upplýsingar sem hann hefur lagt fyrir þing og þjóð um aðgerðir í þágu heimila sem taka á skuldavanda og innlegg hv. þingmanna sem hér hafa tjáð sig um málið.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem þegar hefur verið gert varðandi skuldamál. Ýmislegt var reynt á síðasta kjörtímabili og hefur verið tæpt á hér, en betur má ef duga skal. Við erum mögulega í þeirri stöðu nú að við höfum tækifæri til að gera betur vegna þess að einhverju hefur verið áorkað. Þetta er mál sem hverfur aldrei endanlega, þetta er stöðugt viðfangsefni. Allt of mörg heimili eru í varanlegum skuldavanda með skerta ráðstöfunargetu vegna þess að hér varð forsendubrestur.

Ég get tekið undir orð hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur um að hrun verði í sjálfu sér ekki leiðrétt, en við getum tekið til eftir hrun og leiðrétt þann forsendubrest sem verður til vegna þess. Ég taldi það ekki einungis nauðsynlegt heldur óhjákvæmilegt og afar skynsamlega ráðstöfun að fara með málið fram með þeim hætti sem gert var á sumdarþingi, setja málið fram í þingsályktunartillögu, brjóta það upp í verkferla þar sem hvert verkefni var falið hlutaðeigandi ráðherrum og þannig eyrnamerkt þeim, verkefnin ábyrgðarvædd og sett í tímaferli. Nauðsynlegt vegna þess að málið er í senn stórt og eftir atvikum flókið í lagalegum skilningi, óhjákvæmilegt vegna þess að um er að ræða risastórt efnahagsmál og útfærslan þarf að vera vönduð og ígrunduð. Það var og skynsamlegt vegna þess að samstaða í málinu er afar mikilvæg. Ég get ekki greint annað á máli hv. þingmanna hér í dag en að samstaða sé um málið. Okkur greinir kannski á um leiðir, eðlilega.

Ég get viðurkennt að þetta erindi hreif mig til þátttöku á sviði stjórnmálanna. Ég get viðurkennt það hér. Mörg heimili hafa þurft að kljást og berjast við skuldavanda sem sannarlega er að stærstum hluta til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra húsnæðislána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Í málefnavinnu okkar framsóknarmanna á vetrardögum og inn í kosningavorið var lögð mikil áhersla á að hér þyrftu að koma til aðgerðir og það almennar. Í raun má rekja það til hugmyndar frá kosningunum 2009, sem þá var kölluð 20% leiðin. Um er að ræða almennar aðgerðir með áherslu á jafnræði og réttlæti og ekki síður til að tryggja stöðugleika og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði til framtíðar.

Ég er sannfærður um að þegar leiðrétting kemur af þunga til framkvæmda muni það hjálpa hér til við að koma hagvexti í gang ásamt öðrum aðgerðum að sjálfsögðu, einkaneysla mun hleypa lífi í hagvöxt og auka okkur bjartsýni og kraft þar sem fólk sér fyrir efnahagsstöðu heimilanna og hefur möguleika til að ráða við stöðuna til framtíðar.