145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað geri ég mér fulla grein fyrir því að það er sterk pólitík í þessu máli og það eru tilfinningar. Einn hv. þingmaður talar um að þetta sé bara kalt mat en mér finnst eðlilegt að þetta blandist saman. Inn í umræðuna eiga líka að blandast tilfinningarök vegna þess að við tökum líka ákvarðanir með tilfinningum, það er bara þannig. Maður hefur tilfinningu fyrir einhverjum hlutum, hvernig þeir hafa virkað og hvernig þeir hafa þróast og vegur þetta saman. Það er kalt rökhyggjumat en líka tilfinningar fyrir hlutunum. Þetta gerir maður bara með svo marga hluti sem þokkalega skynsöm manneskja niðri á jörðinni Þetta mál er eitt þeirra þar sem mér finnst að við eigum bæði að beita rökhyggju, tilfinningum og heilbrigðri skynsemi.

Ég kíkti á umsögn frá nokkrum um þetta mál, þar á meðal frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Mér finnst þeir skauta mjög fram hjá öllu sem heitir afleiðingar þessa frumvarps, sem er aukin neysla á áfengi. Þeir styðja frumvarpið heils hugar vegna aukins viðskiptafrelsis. Þá eiga menn auðvitað að tala hreint út um það að þeir eru í þessu máli að tala um aukið viðskiptafrelsi, frelsi stórkaupmanna og innflutningsaðila. Menn láta sig litlu varða hverjar afleiðingarnar verða, á hverjum þetta bitnar og tala svolítið niður til samfélagsins og segja að við séum sem samfélag og ríki með forsjárhyggju. (Forseti hringir.) En hver situr uppi með að borga brúsann, (Forseti hringir.) afleiðingarnar, tjónið og áhrif á heilsu fólks?