149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[14:54]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið sem varð að vísu langt en hann kaus að setja við það formála og taldi það allt í góðu fyrst ég hefði haft formála að spurningunni, og allt vel um það. Hv. þingmaður svaraði þó skýrt og ég virði það við hann.

Þá er spurningin: Getur hv. þingmaður upplýst hvaða fyrirvarar voru settir af hálfu þingmanna þingflokks Sjálfstæðisflokksins við samgönguáætlunina? Það var ekki annað að heyra í máli hv. þm. Vilhjálms Árnasonar en að slíkir fyrirvarar hefðu verið settir.

Ég held að mjög brýnt sé fyrir okkur öll að vita það og heyra alveg skýrt, ekki síst fyrir hæstv. samgönguráðherra, hvaða lið þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ætlar að leggja honum í þeirri samgönguáætlun sem ráðherra lýsti sjálfur þannig að hún væri raunsæ og full fjármögnuð. Er hv. þingmaður og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ósammála þeirri fullyrðingu hæstv. ráðherra?